Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:48:01 (4203)

2000-02-10 12:48:01# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst málið skýrast talsvert við ræðu hv. þm. þó að ég hefði viljað spyrjast frekar fyrir um nokkur atriði. Ég skil málið þannig að það sé lagt fram í þeim tilgangi að Landsvirkjun nýti þau verðmæti sem hún á fyrir nú þegar á fjarskiptasviðinu og hafi hugsað sér annaðhvort að eiga samstarf eða leigja út þessi tæki og tól til annarra aðila.

Vitaskuld hefur þessu kerfi verið komið upp í skjóli þeirrar einokunar sem Landsvirkjun hefur haft í gegnum tíðina og þess vegna held ég að það sé algjört grundvallaratriði, og það þarf að liggja fyrir hér áður en Alþingi samþykkir þetta, hvernig Landsvirkjun hyggist leigja þessi tæki út, þ.e. að allir hafi þá a.m.k. jafnan möguleika og jafnan aðgang til að komast inn á þessi tæki. Þær reglur þurfa náttúrlega að liggja mjög skýrt og klárlega fyrir því ég held að ég og a.m.k. fleiri þingmenn hér inni séu þess lítt fýsandi að ríkið komi inn á þennan fjarskiptamarkað af meiri þunga en er nú þegar.

Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hv. þm., þar sem hv. þm. er formaður iðnn., hvort ekki verði þá ekki reynt að tryggja það að ef af þessu verður þá verði öllum fyrirtækjum sem á því hafa áhuga gert jafnhátt undir höfði og tryggt að allir eigi jafnan aðgang að þessu kerfi ef til þess kemur að það verði leigt út. En ég skil þá jafnframt frv. þannig að ætlunin sé ekki sú að leggja þennan hluta af tækjum og tólum og eigum Landsvirkjunar inn í önnur fjarskiptafyrirtæki.