Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:49:49 (4204)

2000-02-10 12:49:49# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:49]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi að Landsvirkjun hefði komið sér upp búnaði vegna einokunar. Það er þó rétt að taka fram að þetta er búnaður sem Landsvirkjun hefur þurft að koma sér upp til þess að geta tryggt öruggt samband milli stöðva, starfsstöðva Landsvirkjunar á miðhálendinu. Þær aðstæður hafa í rauninni neytt fyrirtækið til að leggja í þann kostnað og er nokkuð öruggur búnaður. Neyðin hefur sem sagt rekið fyrirtækið til þess.

Síðan kemur í ljós að sá búnaður opnar möguleika fyrir ýmsa aðra. Framtakssöm fyrirtæki sjá þar ákveðin sóknarfæri í viðskiptum sínum og hafa greinilega óskað eftir að fá að nýta þennan búnað. Ég held að ljóst sé að eðli málsins samkvæmt muni venjuleg fjarskiptafyrirtæki aldrei leggja slíkan búnað uppi á miðhálendinu einfaldlega vegna þess að umferðin þar er svo lítil og viðskiptin þar eru svo lítil að sá stofnkostnaður mundi aldrei borga sig og þess vegna er mjög skynsamlegt að nýta þann búnað sem er til staðar.

Auðvitað get ég ekki svarað því hvernig að því verður staðið. Það er að sjálfsögðu verkefni sem hv. iðnn. mun skoða þegar málið kemur til hennar. En afstaða mín er sú að Landsvirkjun, eins og ég reyndi að segja í ræðu minni áðan, eigi ekki sjálf að fara í að afgreiða símtöl, getum við sagt, heldur eigi hún að bjóða þeim fyrirtækjum sem vilja fara um þessa þjóðbraut að keppa þar á jafnréttisgrundvelli. Að því leytinu til erum við hv. þm. sammála, hygg ég.