Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:53:20 (4207)

2000-02-10 12:53:20# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. kom fram að frv. fæli ekki í sér stórvægilegar breytingar. Hér væri aðeins verið að nýta mannauð og tækni hjá Landsvirkjun og að bjóða ætti einkaaðilum að nýta þann búnað sem er til staðar.

Upphaflega er þetta gert vegna þess að verið var að biðja um samstarf út af svokölluðu TETRA-kerfi þar sem átti að bjóða út kerfi og þjónustu TETRA-kerfisins. Ríkislögreglustjóri, Landsvirkjun, slökkviliðið, Landsbjörg og fleiri aðilar ræddu það.

Eftir því sem ég best veit er búið að bjóða kerfið út og það var ekki Landsvirkjun sem fékk. Þetta er eðlisbreyting, þetta er stórvægileg breyting vegna þess að frv. felur í sér að Landsvirkjun fær heimild til að taka þátt í og eiga fyrirtæki á sviði fjarskipta, auk orkumála og tengdrar starfsemi sem hún hefur í dag. Þarna er því verið að gefa mjög víðtæka heimild. Eftir því sem manni sýnist, þó að ég viðurkenni að afar lítið er í frv. sjálfu um innihald þess, hvorki í athugasemdunum né í greininni, en það stendur þó í fskj. fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem er alltaf mikið að marka, að verið sé að veita Landsvirkjun heimild til að taka þátt í og eiga fyrirtæki á sviði fjarskipta auk orkumála og tengdrar starfsemi.

Það er því ekki eingöngu svo að verið sé að nýta búnaðinn og þetta er stórvægileg breyting.