Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:55:11 (4208)

2000-02-10 12:55:11# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:55]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég sé sammála hv. þm. um að þetta sé stórvægileg breyting. Í fyrsta lagi er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Þessi skref hafa verið stigin áður og það hefur komið fram hér í umræðunni, þar sem Landsvirkjun hefur verið heimilað að taka þátt í og eiga í öðrum fyrirtækjum með þeim rökum að það styðji annars vegar Landsvirkjun og hins vegar viðkomandi fyrirtæki eða safn fyrirtækja eins og ég nefndi dæmi um með vetnisfélagið. Þar má segja að um svipað dæmi sé að ræða.

Hvað varðar þátttöku Landsvirkjunar í fyrirtæki eða í rekstri fjarskipta um öryggismál þá finnst mér það vera af allt öðrum toga hvort Landsvirkjun fari í samstarf með lögreglunni og björgunarsveitum á grundvelli öryggismála eða hins vegar að Landsvirkjun fari í að afgreiða dagleg símtöl í hreinum viðskiptum, svipað og Landssíminn, Íslandssími eða önnur slík fyrirtæki sem rekin eru af hagnaðarsjónarmiði, getum við sagt, og á viðskiptagrundvelli, eða hvort um er að ræða starfsemi sem snertir eingöngu öryggisatriði. Á því er grundvallarmunur.