Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 13:47:51 (4214)

2000-02-10 13:47:51# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þó nokkrar umræður hafa orðið um þetta frv. sem lætur ekki mikið yfir sér. Mér finnst að nokkuð hafi gætt tortryggni hjá ákveðnum hv. þm. og það er spurt hvað búi að baki. Mig langar að lesa tvær málsgreinar úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun á og rekur fjarskiptakerfi vegna starfsemi sinnar. Það kerfi getur komið að gagni fyrir fleiri aðila, m.a. þá sem starfa að öryggismálum.``

Þetta er kjarni málsins. En ef hv. þm. þykir ekki nógu glöggt hvernig þetta er sett fram í frv. er að sjálfsögðu alltaf sá möguleiki fyrir hendi að skerpa betur gildissviðið í umfjöllun í hv. iðnn. En ég ítreka að að mínu áliti er málið eingöngu til framfara. Það er verið að tala um að nýta búnað sem er til staðar en vegna lagaumhverfis getur Landsvirkjun ekki nýtt hann nægilega almenningi í hag eins og lög eru í landinu.

Ég segi allt orkar tvímælis þá gert er. En í þessu tilfelli finnst mér að málið horfi til framfara.

Hv. þm. Pétri H. Blöndal spyr hvort ég muni halda áfram stefnu fyrrv. hæstv. iðnrh. í orkumálum og auka samkeppni. Það er svo að það er ekki stefna eins einstaklings sem ræður ferð í ríkisstjórn heldur stefna viðkomandi stjórnmálaflokka og stefna í stjórnarsáttmála sem þeir koma sér saman um og gefa út. Engin breyting er uppi í sambandi við orkumál við það að nýr iðnrh. taki við. Eins og hv. Alþingi hefur fjallað um eru breytingar fyrirhugaðar í þessum geira og nefnd hefur verið að störfum sem hefur mótað tillögur um svokallað Íslandsnet þar sem verið er að tala um hringnet, hringkerfi orkunnar. Ég geri alveg ráð fyrir því að ég muni leggja mig fram um að hafa frv. tilbúið á þessum vetri til umfjöllunar og til að kynna þó ég reikni ekki með að það verði að lögum á þessu ári.

Um einkavæðingu Landsvirkjunar er það að segja að meðeigendur hafa óskað eftir umræðum um breytt eignarhald og breytta eignaraðild. Það er mál sem er til skoðunar í ráðuneytinu og ætla ég ekki að fara frekar í það að þessu sinni. Hv. þm. velti fyrir sér hvort þetta frv. stæðist ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Ég segi að ekki verður séð að þetta frv. sé í nokkurri andstöðu við þann samning. Í öllum aðalatriðum sýnist mér að hv. þingmenn geti verið bærilega afslappaðir í sambandi við málið. Það er a.m.k. alveg ljóst að ekkert býr að baki sem hefur ekki komið fram. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan að ef hv. þingmenn telja að skerpa þurfi betur gildissviðið er hv. iðnn. fullfær um að gera tillögur um slíkt.