Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 13:52:31 (4215)

2000-02-10 13:52:31# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er rétt hjá hæstv. ráðherra að frv. sem við ræðum hér er ekki efnismikið og við allar venjulegar aðstæður ætti það að vera auðskiljanlegt. Hins vegar er það einfaldlega svo að lagatextinn og greinargerðin ganga ekki upp, þ.e. það er ekki sama efni í lagatextanum og greinargerðinni. Í lagatextanum segir að verið sé að veita heimild til þess að eiga aðild að fjarskipafyrirtækjum. Það má skilja m.a. á þann veg að þeir geti lagt fjarskiptabúnaðinn inn í önnur fyrirtæki, þeir geti keypt hlutafé í öðrum fyrirtækjum o.s.frv. Hins vegar segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Það kerfi getur komið að gagni fyrir fleiri aðila ...`` Þ.e. það má skilja það þannig að það eigi að leigja fjarskiptakerfið út. Þess vegna segi ég að orð lagatextans og orð greinargerðarinnar fara ekki alveg saman. Það er kannski þess vegna sem hv. þingmenn spyrja sig þeirrar spurningar: Á hvaða vegferð er hæstv. viðskrh. í málinu?