Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:30:58 (4226)

2000-02-10 14:30:58# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Skoðanaskiptin sem hér eiga sér stað eru svo sannarlega skiljanleg. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með hæstv. iðnrh. sem telur sér ekki skylt að skýra nánar þá hluti sem hér er um spurt. Hún vitnar til þingskapa um hvernig 1. umr. eigi að vera og hvað hún eigi að fela í sér og sér ekki ástæðu til að svara ákveðnum spurningum sem hér eru lagðar fyrir hana til að varpa ljósi á frv. sem hér er til umræðu. Ég er harla hissa, herra forseti, á þessum viðbrögðum og tek undir þau orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem talaði hér á undan mér og lýsti sams konar furðu á viðbrögðum ráðherra.

Til þess að hér séu tekin af öll tvímæli óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari skýrt og klárt hvers vegna frv. er ekki bundið við heimild til samvinnu við aðila sem starfa í löggæslu- eða öryggismálum um rekstur kerfis sem Landsvirkjun þegar á og rekur. Getur hæstv. iðnrh. ekki svarað því hvers vegna heimildin í þessu frv. á að vera svona víð og opin? Það veldur hv. þm. áhyggjum. Þingmenn hafa lýst því yfir í ræðum sínum að það að þarna er til fjarskiptakerfi sem getur lagt okkur lið í öryggismálum og löggæslu sé af hinu góða. Þess vegna spyr ég og held að hæstv. iðnrh. hljóti að bera skylda til að svara því: Hvers vegna er frv. ekki bundið við heimild til samvinnu við aðila löggæslu- og öryggismála?

Ég verð, herra forseti, einnig að lýsa furðu minni á því að hæstv. ráðherra skuli hafa lýst því yfir í ræðu sinni áðan að hér væri um að ræða stofnun nýs fyrirtækis. Það gerði hæstv. ráðherra, hún ræddi um stofnun nýs fyrirtækis á fjarskiptamarkaði sem lyti almennum skattareglum en nyti ekki þeirra ívilnunarákvæða sem Landsvirkjun býr við í dag. Nýtt fjarskiptafyrirtæki getur eðlilega ekki búið við þær ívilnanir sem Landsvirkjun býr við. Ég óska eftir því að ráðherrann svari þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp og ítreka að umræðan sem hér fer fram er eðlileg í ljósi þess hversu óljósir hlutir eru á ferðinni í þessu ,,litla frv.`` eins og hæstv. ráðherra kallar það og ,,þessum snarpa texta``.