Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:34:03 (4227)

2000-02-10 14:34:03# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög og hafði raunar ekki ætlað að taka þátt í henni. En ég get ekki orða bundist eftir því sem þessari umræðu hefur undið fram vegna viðbragða hæstv. iðnrh. og raunar stjórnarliða allra sem að málinu hafa komið og bera það hér upp.

Fyrst vil ég segja, herra forseti, að mér fannst nýr hæstv. iðnrh. byrja býsna hressilega í sínu starfi. Mér fannst mannsbragur á fyrstu embættisverkum hennar. Hún kom með öðrum orðum með nýjan andblæ í þetta ráðuneyti og ríkisstjórnina. Þess þurfti með. Hitt er svo annað mál að heldur finnst mér hún hafa fellt seglin þegar kemur að umræðunni sem hér á sér stað.

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherrar leggja fram mál sem eru stefnumarkandi eins og það sem hér um ræðir og kalla þau smámál en fá yfir sig þungar og viðamiklar spurningar um tæknileg og pólitísk efni þá gengur ekki að reyna að víkja sér undan þeirri umræðu með því að vísa á nefndina. Það er hárrétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér áðan. Nú á tveimur dögum hafa tveir nýir ráðherrar, annars vegar hæstv. dómsmrh. og nú hæstv. iðnrh., skotið sér undan þegar bornar hafa verið upp erfiðar spurningar, pólitísks eðlis eða tæknilegs, og sagt: Nefndin reddar þessu, þetta er ágætis ábending en nefndin fer í þetta og lagar.

Það er út af fyrir sig alþekkt á hinu háa Alþingi að nefndir þingsins hafi stundum þurft að færa til betri vegar frv. sem komið hafa úr einstökum ráðuneytum. Við því er ekkert að segja en ráðherrar geta hins vegar ekki skotið sér fram hjá 1. umr. máls með því að vísa til nefndarstarfs. Það hafa þær stöllur gert hér, hæstv. dómsmrh. í gær og hæstv. iðnrh. núna. Ég lýsi yfir sérstökum vonbrigðum mínum með það. Þannig má þetta ekki ganga og á því er enginn mannsbragur.

Hér er stórt mál á ferðinni og ekki nýtt af nálinni. Það er enn einn liðurinn í þeirri eðlilegu og umfangsmiklu umræðu sem farið hefur fram vegna breytinga sem eiga sér nú stað á fjarskiptamarkaði og grundvallast á þjóðvegakerfinu í fjarskiptum sem stundum hefur verið nefnt upplýsingahraðbrautin. Það er ekki lítið mál þegar menn ræða um breytt eðli og hlutverk fyrirtækis á borð við Landsvirkjun. Fyrirtækis sem í fyrsta lagi skuldar tugmilljarða króna, í öðru lagi veltir það svipaðri upphæð, er í þriðja lagi að fara í fjárfestingar sem skipta tugmilljörðum kr., hundruðum milljarða þegar allt verður tínt saman. Í fjórða lagi er fyrirtækið að helmingi í eigu ríkissjóðs. Menn ræða það ekki í einhverju framhjáhlaupi þegar Alþingi Íslendinga ætlar að taka ákvörðun um að þetta fyrirtæki hasli sér völl á nýjum vettvangi, verði meðeigandi í öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaheiminum. Þá geta menn ekki sagt: Þetta er smámál og ef eitthvað þarf að lappa upp á og laga þá gera menn það í nefndinni.

Svona koma menn ekki til þings, herra forseti. Alls ekki nýir, ferskir og djarfir hæstv. ráðherrar. Ég sé hins vegar að hæstv. ráðherra er gjörsamlega hættur í þessu máli. Hún er greinilega að búa sig undir hið næsta. En um það er ekkert að segja, herra forseti. Hæstv. ráðherra. hefur talað hér þrisvar en á þess þó kost að taka þátt í umræðunni hér með andsvörum, en er líka hætt því. (Iðnrh.: Nei, nei.) Það verður þá svo að vera. Ég vil hins vegar hafa það niðurskráð að þetta er engin frammistaða. Það er sannarlega hárrétt að hv. iðnn. og raunar efh.- og viðskn. og samgn., sem þurfa líka að koma að þessu máli, þurfa að vinna þetta mál allt frá grunni. Hér er komið til þings með frv. af þessari stærðargráðu, með greinargerð sem telur sex línur og athugasemdir frá fjmrn. upp á þrjár línur þar sem fullyrt er að þetta hafi engin áhrif á ríkissjóð. Líklega má til sanns vegar færa að það hafi ekki áhrif á ríkissjóð til skamms tíma, en á efnahagskerfi landsins, maður lifandi. Þetta er auðvitað móðgun og, herra forseti, algjör sóun á pappír hafa kápu utan um þetta frv. Það er ekkert nema forsíðan.

Herra forseti, svona gera menn ekki og alls ekki nýir ráðherrar sem ætla að taka upp ný og betri vinnubrögð. Hæstv. iðnrh. gerir vonandi betur næst.