Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:40:13 (4228)

2000-02-10 14:40:13# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. síðasta ræðumanns kom m.a. fram að hann taldi að greinargerð frv. væri of stutt. Ég tel nú eðlilegt að benda á að gæði fylgja ekki alltaf lengdinni. Ég tel ræðu hv. þm. vera kannski gleggsta dæmið um það. Hún fjallaði minnst um frv. sem hér er til umfjöllunar. Málið er í raun afskaplega einfalt. Landsvirkjun á ljósleiðara sem hún hefur þurft að koma sér upp af öryggisástæðum, til að geta stjórnað því mikla púsluverki sem Landsvirkjun er og sér landsmönnum sem kunnugt er fyrir rafurmagni. Síðan hefur það einfaldlega gerst að aðrir aðilar sjá möguleika á að nýta þennan ljósleiðara, m.a. og fyrst og fremst af öryggisástæðum. Þá er spurningin sú: Á Landsvirkjun að leyfa það? Það er líka vert að draga fram, herra forseti, að hér er ekki verið að tala um ljósleiðara í þéttbýlinu heldur uppi á fjöllum. Þess vegna er talað um öryggisatriði í þessu máli. (Gripið fram í.) Það hefur síðan gerst að aðrir, einkaaðilar, vilja líka komast inn á þessa hraðbraut til þess að geta þjónað ferðamönnum á hálendinu. Það er í sjálfu sér líka öryggisatriði. Hins vegar er Landsvirkjun undanþegin sköttum og skyldum eins og hv. þm. hafa bent á og þess vegna er rökrétt og eðlilegt að stofna fyrirtæki um reksturinn á þessari upplýsingahraðbraut. Málið er ekkert flóknara en það, herra forseti.