Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:45:21 (4231)

2000-02-10 14:45:21# 125. lþ. 61.4 fundur 286. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (ársfundur og skipan stjórnar) frv. 35/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta litla frv. er svolítið annars eðlis en það sem við vorum að ræða áðan og gefur örugglega ekki tilefni til annarrar eins umræðu og verið hefur um frv. um Landsvirkjun. Ég tel þetta til bóta og reyndar sjálfsagt að haldnir séu reglulegir ársfundir og þar skili þessi sjóður skýrslu eins og reikna má með að gera eigi í slíkri starfsemi. Hins vegar væri gaman, þó við sleppum því kannski í dag, virðulegi forseti, að hafa umræðu um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og hvort hann hefur sinnt því hlutverki sem honum var ætlað samkvæmt lögum þegar hann var settur á laggirnar. Ég tel fulla þörf á að fara yfir hvort þau markmið sem þar voru sett hafi náðst. Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir slíkri umræða, ef ekki þá munum við í Samfylkingunni gera það.