Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:00:40 (4234)

2000-02-10 15:00:40# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:00]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Framganga hæstv. iðnrh. vegna hugmynda um framtíð Rafmagnsveitna ríkisins, Rariks, hefur valdið óþarfa misskilningi, uppnámi, ruglingi í fréttaflutningi og óvissu og tortryggni meðal starfsmanna og notenda.

Rarik er landsbyggðarfyrirtæki með um 240 starfsmenn sem dreifast um allt land en 60 af 240 starfsmönnum eru staðsettir í höfuðstöðvum Rariks í Reykjavík. Hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt að heimila iðnrn. viðræður við Akureyrarbæ um könnun á mögulegri eignarformsbreytingu á Rarik með aðkomu Akureyringa og flutningi höfuðstöðva fyrirtækisins til Akureyrar.

Vegna stórfellds misskilnings í fréttaflutningi varðandi þessa hugmynd óska ég eftir því að hæstv. iðnrh. staðfesti hér að einungis sé um að ræða heimild til viðræðna um hugmynd og að engin ákvörðun hafi verið tekin.

Í tillögu iðnrh. er jafnframt reiknað með að kannaður verði rekstrargrundvöllur fyrirtækis sem þjónaði útvíkkuðu rekstrarsvæði Rariks. Það kemur mér á óvart að iðnrn. viti ekki að Rarik hefur unnið mjög skipulega að útvíkkun rekstrarsvæðis um árabil til að styrkja hagsmuni landsbyggðarinnar og náð ágætum árangri þrátt fyrir ýmsar skyldur við dreifbýl svæði, skyldur sem kosta meira en tekjur skila til baka.

Það er ekki nýtt að rætt sé um Rarik undir ýmsum formerkjum, síðast tengdist það Akureyri árið 1993 þegar rætt var um að veiturnar á Akureyri gengju inn í Rarik. Um þetta getur hæstv. iðnrh. í erindi sínu til ríkisstjórnarinnar en það er rangt sem sagt er þar, að Rarik hafi lagst gegn málinu þá. Ljóst var að megintilgangur Akureyrarbæjar þá var að ná út eignarhlut bæjarins í Landsvirkjun. En það var Reykjavíkurborg sem lagðist þá gegn breytingu á eignarhaldi í Landsvirkjun og allt bendir til að það hafi verið meginaástæðan fyrir því að viðræður fóru út um þúfur.

Það má minna á að Reykjavíkurborg er skrifuð fyrir 45% í Landsvirkjun og Akureyri liðlega 5% en þessi ágætu bæjarfélög hafa nánast ekki lagt krónu af eigin fjármagni til Landsvirkjunar landsmanna allra. Þau hafa þó notið sérkjara umfram aðra landsmenn í orkukaupum. Þessi ágætu bæjarfélög hafa því fengið áskrift að eignum án áhættu. Ekki er alltaf allt sem sýnist.

Það er sjálfsagt að ræða þessar hugmyndir og veiturnar á Akureyri væru mikil búbót fyrir landsbyggðarfyrirtækið Rarik. En það er ekki trúverðugt að setja á oddinn kröfu um flutning höfuðstöðva til Akureyrar, þar sem nú þegar eru 25 starfsmenn Rariks eða helmingi færri en í höfuðborg landsins. Það er ekki ástæða til að útiloka neitt fyrir fram en ef flytja ætti höfuðstöðvar Rariks út á land og styðja landsbyggðarrökum þá liggur beinast við að höfuðstöðvarnar færu til Suðurlands.

Nær 90%, herra forseti, af allri orkuframleiðslu Íslendinga á sér stað á Suðurlandi án þess að hún hafi verið Sunnlendingum sérstök hlunnindi umfram aðra. Það kann líka að vera að orkuveitur á Suðurnesjum, Ölfusi, Árborg, í Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjum vildu taka þátt í frekari útvíkkun á rekstri Rariks. Nú þegar eru orkuveiturnar á Höfn í Hornafirði og Hveragerði innan borðs hjá Rarik. Það er varla þornað blekið á kaupsamningi Rariks við Hveragerðisbæ um kaup á Veitustofnun Hveragerðis. Hvergerðingar voru ekki að selja fyrirtækið til þess að það færi beint undir forsjá nýs Rariks sem tengdist fyrst og fremst, beint og óbeint, forsjá nýs norðausturkjördæmis.

Ég vantreysti ekki forustumönnum Akureyrar, síður en svo. En þessi mál eru margslungin og viðkvæm og margs er að gæta. Friður verður að ríkja um framtíðarþróun í þessum efnum. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá bæjarstjóranum á Akureyri að það er áhyggjuefni ef landsbyggðin verður út undan í kapphlaupinu um orkubúskapinn. Þetta má ekki fara í sama horf og mest er deilt um í fiskveiðistjórninni, að þeir stóru gleypi allt. Höfuðborgin sem aðrir verða að fara varlega í þessum efnum.

Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því hjá Rarik að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækisins m.a. með því að kaupa veitukerfi í þéttbýli. Hagræðing hefur aukist og rekstur bækistöðva fyrirtækisins á landsbyggðinni hefur styrkst. Árið 1991 keypti Rarik dreifikerfi hitaveitunnar á Höfn í Hornafirði, 1992 á Seyðisfirði, dreifikerfi og virkjun á Siglufirði og Skeiðsfossvirkjun í Fljótum 1991, rafdreifikerfið í Borgarnesi og Hvanneyri 1995 og veituna í Hveragerði í ársbyrjun nú. Þá er Rarik að undirbúa 90 megavatta jarðgufuvirkjun í Grændal í Hveragerði á vegum Sunnlenskrar orku í samstarfi við sunnlensk sveitarfélög. Rarik á jafnframt 75% í Héraðsvötnum sem kanna möguleika á 33 megavatta vatnsaflsvirkjun í Skagafirði.

Rarik er skipt upp í fimm umdæmi með aðalskrifstofu í Reykjavík. Á Vesturlandi eru 32 starfsmenn, á Norðurl. v. 30, á Norðurl. e. 32, þar af 25 á Akureyri, á Austurlandi 54, á Suðurlandi 25 og í Reykjavík 60.

Herra forseti. Það er grundvallaratriði og krafa að Rarik sem landsbyggðarfyrirtæki hafi fulla aðild að viðræðum um stefnumótun og framtíð fyrirtækisins, sama hver á í hlut. Um allt annað verður ósætti.