Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:06:04 (4235)

2000-02-10 15:06:04# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 2. febrúar sl. gerði ég grein fyrir viðræðum sem ég og forveri minn höfum átt við bæjarstjórann á Akureyri um hugsanlegt samstarf ríkis og bæjarins í orkumálum og bréfi sem bæjarstjórinn sendi mér 17. janúar sl. í framhaldi af þessum viðræðum. Í bréfinu leggur bæjarstjórinn til að ráðuneytið og Akureyrarbær kanni sameiginlega mögulega kosti við eignarformsbreytingu á Rafmagnsveitum ríkisins með aðkomu Akureyringa og flutningi höfuðstöðva fyrirtækisins til Akureyrar. Jafnframt var lagt til að kannaður yrði rekstrargrundvöllur fyrirtækis sem þjónaði útvíkkuðu rekstrarsvæði rafmagnsveitnanna og hvaða umbætur væri nauðsynlegt að gera til að tryggja rekstur slíks fyrirtækis. Í bréfinu kemur fram að hugsanlegt er að eignir orkuveitna Akureyrarbæjar yrðu lagðar inn í slíkt félag.

Á fundinum samþykkti ríkisstjórnin að gengið yrði til samstarfs við Akureyrarbæ um slíka athugun og jafnframt yrði kannaður áhugi hjá öðrum sveitarfélögum á samstarfi við ríkið og bæinn. Þetta er staða málsins. Orðum hv. málshefjanda um óeðlilegan framgang minn í þessu máli vísa ég til föðurhúsanna. Ef um misskilning er að ræða í þessu máli þá er hann tilkominn vegna mistúlkunar bæjarstjórans á Akureyri en ekki þeirrar sem hér stendur.

Vilji er fyrir hendi hjá ríki og Akureyrarbæ til að kanna samstarf í þessu efni. Næsta skref er að gera verk- og tímaáætlun fyrir athugunina og fá óháðan ráðgjafa til að vinna að henni. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig umrædd fyrirtæki komi að málinu en ljóst er að til þess að unnt verði að vinna að verkefninu með skilvirkum hætti þarf að leita til fyrirtækjanna og starfsmanna, m.a. eftir upplýsingum og gögnum.

Á árinu 1993 sömdu iðnrn. og bæjarstjórn Akureyrar um að láta fara fram sameiginlega könnun á stofnun hlutafélags sem yfirtæki eignir og skuldir Rafmagnsveitna ríkisins, Rafveitu Akureyrar og eignarhluta Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Málið var ekki til lykta leitt, en sterkar vísbendingar um að sameining mundi skila umtalsverðri hagræðingu sem numið gæti um 5% af rekstrargjöldum. Auk þessa var talið að unnt væri að draga álíka mikið úr rekstrarkostnaði með hagræðingu hjá Rafmagnsveitunum óháð sameiningu fyrirtækjanna.

Þá eru sterkar vísbendingar um að með sameiningu yrði til framsækið og öflugra fyrirtæki sem veitt gæti enn betri þjónustu. Ég tel mjög áhugavert að efna til samstarfs við Akureyrarbæ um þetta verkefni. Bærinn er stór aðili í rekstri orkufyrirtækja, á bæði rafveitu og hitaveitu, tæplega 5,5% eignarhlut í Landsvirkjun og tekur auk þess þátt í rannsóknum á virkjunarkostum í samstarfi við önnur sveitarfélög og orkufyrirtæki. Markmiðið með þeirri nýskipan sem áformað er að koma á í orkumálum á næstu árum er m.a. að auka skilvirkni í rekstri orkufyrirtækja og stuðla þannig að lægra orkuverði. Ætla má að breytingar á skipan orkumála hafi m.a. í för með sér sameiningu orkufyrirtækja í stærri heildir sem verði betur í stakk búnar til samkeppni í greininni.

Reynsla annarra þjóða sem breytt hafa orkulöggjöf sinni er að fyrirtæki hafa leitað nýrra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði. Oft hefur það leitt til sameiningar fyrirtækja og samstarfs um tiltekin verkefni. Loks mundi flutningur höfuðstöðva Rafmagnsveitnanna til Akureyrar augljóslega styrkja landsbyggðina. Starfsemi Rariks fer að stærstum hluta fram utan höfuðborgarsvæðisins, fyrirtækið er því í eðli sínu landsbyggðarfyrirtæki og því ekki óeðlilegt að höfuðstöðvar þess séu utan höfuðborgarsvæðisins.