Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:14:57 (4238)

2000-02-10 15:14:57# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er ljóst að innan Evrópu er mikil breyting að verða á orkusölumálum og orkuframleiðslu. Þar hefur orðið til á tiltölulega fáum árum mikill orkumarkaður og mikil samkeppni þar sem verð hefur farið lækkandi. Flutningamöguleikarnir eru miklu fleiri en þeir voru og í það sama stefnir hjá okkur.

Það hefur legið fyrir að skipan orkumála í framtíðinni mun leiða til sameiningar orkufyrirtækja. Þau verða að takast á við aukna samkeppni með því að sameina og styrkja stöðu sína. Það er mjög mikilvægt, ekki síst á Íslandi þar sem byggðajafnvægi er minna en víðast hvar annars staðar í Evrópu, að á landsbyggðinni verði hægt að koma upp öflugum orkufyrirtækjum sem geti af krafti tekið þátt í að virkja ónýtta orkuframleiðslumöguleika og byggja upp iðnað á grundvelli þessara möguleika. Á Norðurlandi er mikil ónýtt orka hvort sem litið er til vatnsorku eða jarðvarma. Því er brýnt að ýta undir nýtingarmöguleika með því að stuðla að því að til verði fyrirtæki sem hafi stöðu til að takast á við meiri háttar verkefni. Nýjar aðstæður á orkumarkaði kalla á þetta.

Það er löngu tímabært að kanna möguleika á að sameina kosti sem Rarik býr yfir og orkufyrirtæki Akureyrar og fleiri fyrirtæki með það fyrir augum að út úr slíkri athugun gæti komið öflugt orkuframleiðslufyrirtæki sem gæti tekið virkan þátt í samkeppni á orkumarkaði.