Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:16:46 (4239)

2000-02-10 15:16:46# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hvergi í Evrópu hefur byggðaþróun orðið eins og hér á Íslandi þar sem um 60% þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Ég hygg að þverpólitísk samstaða sé um að það sé einn meginvandinn í íslenskum stjórnmálum í dag.

Með rökum má halda því fram að ríkið hafi leitt þessa þróun með staðsetningu þjónustustofnana sinna. Það hefur líka komið fram að a.m.k. þrjár síðustu ríkisstjórnir hafa reynt að snúa af þeirri braut. Í hvert skipti hefur komið í ljós að það reynist mjög erfitt. Það rís upp mikil andstaða við slíkar breytingar.

Herra forseti. Grundvallaratriðið hlýtur ávallt að vera að þjónustustofnanir skuli staðsettar sem næst þeim vettvangi sem þær eiga að þjóna. Þannig má spyrja hvort eðlilegt sé að Vegagerð ríkisins hafi höfuðstöðvar sínar í Reykjavík eða hvort Landhelgisgæslan sé best staðsett með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík. Þannig má áfram telja, herra forseti.

Nú er spurningin um hvort Rarik eigi að flytjast norður, suður eða jafnvel eitthvert annað. Það hefur komið fram að verið er að meta hvað er talið skynsamlegast og hagkvæmast í þeim efnum. Fyrr en það mat hefur farið fram er auðvitað ekki hægt að taka neina ákvörðun.

Það liggur líka fyrir, herra forseti, að nú eru breyttar aðstæður, pólitískar, hvað varðar byggðasjónarmið, samgöngur og einnig hvað varðar fjarskipti. Á þeim forsendum og á þeim grundvelli má segja að landamæri séu upphafin. Því er rökrétt og eðlilegt að ríkisvaldið endurskoði stefnu sína um staðsetningu ríkisstofnana og fylgi eftir með heildaráætlun um staðsetningu þeirra. Mikilvægt er að það gerist yfirvegað og verði kynnt þannig að hægt sé að koma í veg fyrir það sem verst er af öllu, þ.e. að landsfjórðungar fari í hár saman í deilum um einstaka stofnanir.