Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:23:26 (4242)

2000-02-10 15:23:26# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að hefja umræður um þetta mál hér. Tvær ástæður eru helstar til að ræða um málið hér. Í fyrsta lagi sú sérkennilega málsmeðferð að starfsmenn Rariks skuli heyra fyrst í fjölmiðlum af því sem kemur hér frá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. iðnrh. setur á blað að markmið þessarar nýskipan sem áformað er að koma á í orkumálum á næstu árum sé m.a. að auka skilvirkni í rekstri orkufyrirtækja og stuðla þannig að lægra orkuverði. Má skilja það svo að þeir 60 Reykvíkingar sem vinna við þetta fyrirtæki hér í höfuðstöðvunum hagi störfum sínum þannig að óarðbært sé og ráða þurfi einhverja aðra?

Það er líka dálítið merkilegt þegar virðulegir þingmenn úr öðrum kjördæmum en Reykjavík tala eins og Reykjavík sé ekki hluti af landinu, eins og landsbyggðinni komi Reykjavík ekkert við. Þeim kemur ekkert við hvað verður um 60 manns, 60 fjölskyldur sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara ekki í umræðunni. Nei, það á að flytja höfuðstöðvarnar norður því að það mun styrkja byggð á Akureyri. Allt í lagi með það. Hér er hins vegar talað um málið eins og fólkið fylgi ekki með í þessari umræðu.

Við skulum heldur ekki gleyma því að Reykjavík er önnur stærsta verstöð landsins ef menn vilja tengja það saman. Mér þykir mjög merkilegt að menn skuli líka taka Vegagerðina inn í umræðuna og segja álitamál hvort ekki eigi að flytja Vegagerðina líka. Hvar er mesta umferðin á þessu landi? Ef menn ætla að mæla það í vegarspottum þá geta menn horft á hina dreifðu byggt en mesta umferðin og vegaframkvæmdirnar eru í Reykjavík. Ég verð að segja það, hv. þm. hinna dreifðu byggða, Reykjavík er hluti af landinu. Talið ekki svo til þessara 60 manna sem vinna hjá Rarik og þeirra fjölskyldna eins og þeim komi þetta bara ekkert við.