Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:32:36 (4246)

2000-02-10 15:32:36# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), ÞJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Þorvaldur T. Jónsson:

Herra forseti. Í máli hæstv. iðnrh. áðan kom fram sérstök áhersla á hagkvæmnissjónarmiðið, þ.e. hvort ákvörðun um það hvort flytja ætti Rarik til Akureyrar mundi byggjast á því hvort það væri hagkvæmt eða ekki enda hlýtur það að vera rökrétt niðurstaða þar sem framtíð Rariks ræðst meira af því en nokkru öðru að fyrirtækinu sé gert kleift að laga sig að aðstæðum á orkumarkaðnum á hverjum tíma og að hagkvæmustu leiðir séu fundnar í rekstri þess. Eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna vekja hugmyndir á borð við þessa að sjálfsögðu byggðapólitíska umræðu og ég hef grun um það og það kom bæði beint og óbeint fram í máli hv. málshefjanda að það var drifkrafturinn í málshefð þessari.

Umræða um óæskilega þróun í byggðamálum hefur verið mjög áberandi og jafnvel leiðandi í stjórnmálaumræðu síðustu missira. Stefna hæstv. ríkisstjórnar hefur verið og er að stuðla að fjölgun atvinnutækifæra á landsbyggðinni þannig að þau sjónarmið og hin byggðapólitíska hlið málsins ætti að vera öllum kunn og ekki að koma neinum á óvart. Því hlýtur að vera fagnaðarefni, herra forseti, fyrir okkur sem höfum haldið á lofti í umræðunni einmitt þessu atriði að vilji væri til þess að bregðast við byggðavandanum með ýmsum hætti, m.a. flutningi ríkisstofnana út á land, að nú skuli vera komin alvara í að fylgja þessum áformum eftir með því m.a. að kanna hagkvæmni þess að flytja Rarik til Akureyrar. Ég vænti þess að menn láti ekki skæklatog á milli kjördæma spilla góðum fyrirætlunum heldur horfi fyrst á hagsmuni þess fyrirtækis sem hér um ræðir og þar með hagsmuni okkar allra sem eigum þetta fyrirtæki og njótum þjónustu þess.