Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:39:40 (4249)

2000-02-10 15:39:40# 125. lþ. 61.8 fundur 288. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, á þskj. 449, 288. mál.

Það frv. sem mælt er fyrir er ekki stórt í sniðum eða efnismikið eins og hefur kannski verið um ýmis þau frv. sem hafa verið rædd í dag en meginefni þess er að í stað orðins ,,Viðskiptaráðherra`` í 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna komi: Fjármálaráðherra. En í 4. gr. laganna um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands segir:

,,Viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.``

Lagt er til að þessi eignarhlutur ríkisins verði færður frá viðskrh. yfir til fjmrh. Meginrökin fyrir því eru að í reglugerð nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands segir að fjmrn. fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis.

Undanfarið hefur þeirrar tilhneigingar hins vegar gætt þegar opinberum fyrirtækjum er breytt í hlutafélög að fagráðherra fari áfram með hlut ríkisins í fyrirtækinu. Það getur leitt til þess að þegar selja skal hlut ríkisins komi upp afar erfið staða fyrir viðkomandi ráðherra sem getur bitnað á fyrirtækinu sjálfu og starfsumhverfi fyrirtækja í viðkomandi grein. Má taka sem dæmi að undir viðskrh. heyra m.a. bankamál, samkeppnismál og mál er varða óréttmæta viðskiptahætti. Hann fer jafnframt með eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og verður því að viðhalda virði þeirra.

Brýnt er að þeirri meginreglu sem mörkuð er í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands sé fylgt og fjmrn. fari með eignarhlut ríkisins í samkeppnisfyrirtækjum. Fagráðherra á hverju sviði verði þá fagráðherra allra fyrirtækja á viðkomandi sviði en ekki sérstakur ráðherra einstakra fyrirtækja. Slíkt hefur vakið tortryggni og hafa fyrirtæki á markaðinum haldið því fram að það leiddi til samkeppnisforskots að hafa undir höndum upplýsingar um að stjórnvaldsreglur af tilteknu tagi séu í undirbúningi.

Það er því að mati flutningsmanna, sem ásamt mér er hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, betra bæði fyrir opinberu fyrirtækin og markaðinn að leikreglur séu skýrar og opinber fyrirtæki í samkeppnisgreinum sæti ekki þeirri gagnrýni að þau njóti þess að æðsti yfirmaður þeirra fari með stjórn og eignarráð í þeim og setji að auki leikreglur fyrir markaðinn almennt.

Virðulegi forseti. Undanfarin ár höfum við lifað við þá sérstöku stöðu að því er varðar fjarskiptamarkaðinn að samgrh. hefur farið með eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. Ég held að ekki þurfi að rekja þá sögu neitt sérstaklega en samskipti Landssíma Íslands hf. og annarra fyrirtækja sem eru að reyna að festa sig í sessi á þessum markaði hafa verið með þeim hætti að eftirlitsaðilar á vegum ríkisins hafa þurft að koma að þeim málum. Sí og æ hefur það gerst að þetta tiltekna fyrirtæki, Landssími Íslands, hefur ákveðið eftir að eftirlitsaðili á markaði, í þessu tilviki Samkeppnisstofnun, hefur ákveðið að gera a.m.k. athugasemdir við starfsemi þess, að bera þau mál undir dómstóla sem mönnum er vissulega heimilt. Það er óhjákvæmilega spélegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu með þessum hætti að stefna hver öðrum í orðsins fyllstu merkingu því að samgrh. fer vitaskuld með eignarhlut ríkisins í Landssímanum og er þar af leiðandi ráðandi aðili á því sviði, viðskrh. fer með yfirstjórn samkeppnismála og er því ráðandi aðili á því sviði. Það er náttúrlega merkilegt að ríkisfyrirtæki sé sí og æ að stefna stofnun sem ríkisvaldið rekur í því skyni að halda uppi ákveðnum aga á þessum markaði. Þetta er ástæðan fyrir því að frv. er lagt fram. Hættan er líka á þessu sviði því að nú erum við t.d. búin að vera í umræðu um bankamál, um þróun á því sviði og hvernig bankar hafa nánast umgengist þennan unga hlutabréfamarkað og verðbréfamarkað sem er að myndast og hefur verið haldið uppi talsverðri gagnrýni þar að lútandi, að við getum farið að upplifa það að bankarnir fari að stefna Fjármálaeftirlitinu. Það er svo spéleg staða að viðskrh. sem fer með 73% eignarhlut, ef ég fer rétt með, í þessum bönkum er jafnframt yfirmaður Fjármálaeftirlitsins sem getur þá leitt til þess að banki sem viðskrh. fer að stórum hluta með eignarhlutinn í, fari að stefna eftirlitsaðila á sama vettvangi. Þetta er vitaskuld, virðulegi forseti, orðið dálítið hjákátlegt og ég held að þetta geti verið mjög skaðlegt.

Þetta eru meginrökin fyrir því að við leggjum til, ég og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, að í stað viðskrh. fari fjmrh. með eignarhlutinn, enda er það í samræmi við þær meginreglur og þau meginviðhorf sem koma fram í verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Því leggjum við til, virðulegi forseti, sem fram kemur á þskj. 449, að þetta verði nú þegar fært yfir til fjmrh. Það er ekki vegna þess að við vantreystum viðskrh. að fara með þennan hlut heldur hitt að hann getur lent í mjög sérstæðri stöðu eins og við höfum verið að upplifa núna um nokkurra ára skeið að því er varðar samskipti Landssíma Íslands sem ríkisfyrirtækis og Samkeppnisstofnunar sem er stofnun á vegum ríkisvaldsins. Ég held, virðulegi forseti, að við höfum allt annað við fjármuni skattborgara að gera en dunda okkur við að ríkisvaldið sé að stefna einstökum stofnunum og fyrirtækjum innan þess.

Virðulegi forseti. Ég legg eindregið til að þetta frv. verði samþykkt og að umræðu lokinni verði því vísað til hv. efh.- og viðskn.

[15:45]