Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:25:31 (4257)

2000-02-14 15:25:31# 125. lþ. 62.11 fundur 243. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þær upplýsingar, sem hér er lagt til að verði á ný birtar með ríkisreikningi, voru á árabilinu 1983--1997 ævinlega birt með ríkisreikningi. Það mun hafa verið hv. þm. sem ber fram þetta frv. sem 1. flm. sem fékk þá lagabreytingu samþykkta, árið 1982 vænti ég. Ég minnist þess ekki að um þær hafi orðið sérstakar umræður með reglulegu millibili en af einhverjum ástæðum ákvað ríkisreikningsnefndin, sem samdi frv. um fjárreiður ríkisins á sínum tíma, sem eru nú gildandi lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að fella þessi yfirlit brott úr ríkisreikningnum og eflaust einnig ýmis önnur sambærileg eða svipuð yfirlit. Ég þekki það ekki til hlítar og verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega hvernig á þeirri breytingu stendur.

Hitt er svo auðvitað annað mál að allar þessar upplýsingar eru tiltækar í ríkisbókhaldinu og þær eru ekkert leyndarmál, allra síst fyrir þingið að kynna sér ef ástæða eða vilji er til þess.

Ég get alveg tekið undir það sjónarmið að það eigi að fara yfir þetta mál á nýjan leik, hvort ástæða sé til þess að birta þessar upplýsingar. Hins vegar finnst mér að menn verði dálítið að gæta sín í því hver tilgangurinn er með því. Er tilgangurinn sá að hafa þessar upplýsingar tiltækar til að veita aðhald í útgjöldum ríkisins eða reyna að spara eins og hægt er, veita mönnum eðlilegt aðhald að því er varðar kostnað eða er tilgangurinn bara sá að reyna að gera útgjöld af þessu tagi tortryggileg?

Ég vek jafnframt athygli á því að fyrsti liðurinn eru launagreiðslur. Hv. þm. lagði mikla áherslu á það að hugmynd hennar væri sú að reyna að spara, leggja þessar upplýsingar á borðið og reyna að spara. Á það líka við um fyrsta liðinn, um launagreiðslurnar? Föst yfirvinna, heildarlaun, önnur yfirvinna, hlutfall yfirvinnu o.s.frv. Þingmaðurinn verður sjálfur að svara því en ég tek undir það sem markmið og viðleitni að upplýsingar af þessu tagi eigi almennt séð að vera aðgengilegar til að veita mönnum eðlilegt aðhald sem bera ábyrgð á útgjöldum af þessu tagi. Við höfum samþykkt í ríkisstjórninni og sent út í umburðarbréfi til allra forstöðumanna ríkisstofnana sérstakar verklagsreglur um meðferð fjár og hvernig þeim beri að halda sig innan ramma fjárlaga. Við munum að sjálfsögðu fylgja því eftir og auðvitað eru á þessum lista einhver útgjöld sem forstöðumenn geta gjarnan haft mjög gott taumhald og stjórn á. Þó ég sé ekki tilbúinn til þess að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. á þessu stigi þá vil ég heldur ekki hafna því eða þeirri hugsun sem kemur fram í frv. að því marki sem hún byggist á því að veita eðlilegt aðhald og reyna að tryggja sem besta nýtingu á opinberu fé. Eins og ég segi eru þetta allt upplýsingar sem liggja fyrir í ríkisbókhaldinu og er hægðarleikur að nálgast ef menn óska þess.

Ég hef því svarað þessu efnislega, herra forseti, en síðan vék þingmaðurinn að einu atriði öðru sem er ekki nema óbeint tengt þessu frv. og það er spurningin um dagpeningagreiðslur hins opinbera. Spurt var hvort uppi væru hugmyndir um að breyta þeim. Svarið við því er að ekki eru neinar sérstakar hugmyndir uppi um það á þessari stundu aðrar en þær að reyna að hafa hemil á þeim kostnaði sem fylgir ferðalögum bæði innan lands og utan. Það hafa verið til hugmyndir, eða ábendingar réttara sagt, m.a. frá Ríkisendurskoðun um að það bæri að breyta því kerfi sem er nú við lýði yfir í það að taka upp beinar greiðslur kostnaðar samkvæmt reikningum. Slíkt fyrirkomulag er þekkt víða annars staðar og þekkist bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum en kallar hins vegar á mjög nákvæmt utanumhald og eftirlit og kostnað sem því fylgir. Það er ekki endilega þar með sagt að því fylgi sparnaður.

Það er líka rétt að gæta að því að fyrirkomulag dagpeningagreiðslna á Íslandi er í og með kjarasamningsatriði við opinbera starfsmenn og í ferðakostnaðarnefnd sem ákveður dagpeninga sitja fulltrúar bæði starfsmanna og ríkisins. Það er sem sagt ekki einhliða ákvörðun ríkisins hverjir þessir dagpeningar eru og ég hygg að mörgum hér inni þyki sem svo að þeir geti í einhverjum tilfellum verið nokkuð rúmir eins og sagt er. En auðvitað er ekki hægt að alhæfa um þá hluti í öllum tilvikum og ég hygg að þeir sem sitja í ferðakostnaðarnefndinni á hverjum tíma hafi reynt að vinna störf sín af eins mikilli samviskusemi og kostur er og hafa til að mynda á undanförnum árum nokkuð fikrað sig yfir í það að hafa þessar greiðslur mismunandi eftir löndum. Ég veit til þess að í nálægum löndum eins og Noregi eru mjög mismunandi dagpeningar tilgreindir eftir þeim löndum sem farið er til og langur listi yfir það vegna þess að kostnaður milli landa er auðvitað breytilegur, bæði gistikostnaður og uppihaldskostnaður og eflaust má ýmsu breyta til batnaðar og í sparnaðarátt. En vegna þess hvernig þessum málum er fyrir komið er það ekki ríkið eitt sem getur tekið einhliða ákvarðanir í þessu efni.