Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:38:11 (4261)

2000-02-14 15:38:11# 125. lþ. 62.11 fundur 243. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs voru þau góðu orð hæstv. fjmrh. að það væri mikilvægt að kjarakerfið væri opið og gagnsætt. Staðreyndin er sú að samkvæmt upplýsingalögum ber að upplýsa um kjör einstakra starfsmanna, um föst umsamin kjör einstakra starfsmanna. Greint er frá því í greinargerð með þeim lögum og framsögumaður með frv., þáv. formaður allshn. að ég hygg, gat um það í framsöguræðu sinni að sá háttur skyldi hafður á.

Ég kvaddi mér hljóðs núna vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði það sína staðföstu skoðun að kjarakerfið ætti að vera opið og upplýsingar uppi á borði og ég er að benda á að sú er ekki raunin. Ríkisstofnanir neita að gefa svör þegar þess er krafist að upplýsingar séu gefnar um þessi efni.