Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:40:31 (4263)

2000-02-14 15:40:31# 125. lþ. 62.11 fundur 243. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðurnar fyrir því að þetta var tekið út liggja fyrir og þær koma fram í frv. og ég var upplýst um það af fjmrn. Það var af því að verið væri að fækka yfirlitum. Það var ekki nein önnur skýring á því. Fækka yfirlitum sem ættu að fylgja með ríkisreikningi því að þetta er yfirlit sem fylgir með ríkisreikningi. Þetta eru auðvitað engin rök.

En ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra. Ég túlka það svo að hann hafni því a.m.k. ekki fyrir fram að þetta mál nái fram að ganga og vilji kynna sér rökin á bak við það og það er ágætt. Ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt er auðvitað alveg skýr. Hér er fyrst og fremst verið að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og stuðla að gagnsæju og sýnilegu kerfi og ég held að full þörf sé á því að veita kerfinu aðhald að því er þetta mál varðar þegar fyrir liggur að þessi kostnaðarliður hefur hækkað um 230 millj. milli áranna 1998 og 1999. Það eru bærilega stórar fjárhæðir þegar litið til þess sem verið er að spara, t.d. í heilbrigðiskerfinu og við höfum orðið vitni að. Það liggur því alveg klárt fyrir, herra forseti, að tilgangurinn með þessu er að veita aðhald og að við þingmenn getum séð það og borið það saman við síðasta ár hvort þarna megi ekki spara þegar við erum að leita eftir sparnaðartillögum í viðleitni okkar að styðja ráðherrann í því að spara fyrir ríkiskassann. Tilgangurinn er því alveg ljós en ástæðan fyrir því að þetta var tekið út er eingöngu sú að verið var að fækka yfirlitum sem áttu að fylgja með ríkisreikningi. Þegar hæstv. ráðherra hefur kynnt sér það þá er ég alveg viss um að við fáum stuðning hans í efh.- og viðskn. fyrir því að þetta mál nái fram að ganga. Ef vilji er fyrir því í hv. efh.- og viðskn. að beina því til ráðherrans að þetta verði gert með reglugerð, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort við megum þá ekki vænta stuðnings hans við það. Það er verið að kalla eftir því af hálfu þingsins að þetta yfirlit birtist reglulega. Og það sem ráðherrann nefndi varðandi launagreiðslur þá var tilgangurinn með þeim á sínum tíma, 1983, sá að mismunur var í kjörum karla og kvenna og það var verið að reyna að fá hann sýnilegan og upp á borðið. (Forseti hringir.) --- Hvaða hávaði er í forseta.

(Forseti (HBl): Þegar hv. þingmenn kunna ekki að hætta á réttum tíma, þá er hávaði í forseta eins og vera ber. Og hann getur verið rómsterkur ef á þarf að halda.)