Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:12:11 (4269)

2000-02-14 16:12:11# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að mér sé ekki lagt það til lasts þó ég hafi gert athugasemdir við textann sem fylgdi með þessu frv. um breytingar á tollalögum. Ég tel að eitt af skylduverkefnum okkar alþingismanna sé að koma fram með góð rök fyrir þeim málum sem við flytjum hér. Þeirra sem fylgjast með er að koma með gagnrök og spurningar ef málin eru ekki nógu skýr eins og raunin er í þessu tilfelli. Sú spurning hlýtur að koma upp hjá hv. efh.- og viðskn., sem væntanlega mun fá þetta mál til meðferðar, þ.e. grundvallarspurningin: Hvers vegna og af hverju? Mér finnst það hreinlega vanta í þessa greinargerð.

Ég tek það fram enn og aftur að ég geri mér ljóst mikilvægi Þorlákshafnar sem tollhafnar og Hornafjarðar þó að ég geri mér ekki alveg grein fyrir umfanginu. Þær upplýsingar vantar mig. Varðandi sérþekkingu mína á þessum höfnum tveimur þá er kannski heldur of í lagt hjá hv. 1. flm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni. Ég er kannski ekki sérfræðingur hvað þessar hafnir varðar en ég veit hvar þær eru á landinu og hef sem sjómaður margsinnis komið til þessara hafna.