Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:21:07 (4275)

2000-02-14 16:21:07# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, Flm. ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni og fyrir þær röksemdafærslur sem hafa verið færðar hér fram. Þær voru sumar hverjar mjög tæknilegar og við höfum lært heilmikið, a.m.k. ég sem kem frá stað sem er 30 km frá sænum og hef enga höfn í nágrenninu. Á vissan hátt eru örlitlir útúrsnúningar í þessu máli, en það í raun og veru skaðar það ekki því það er nauðsynlegt að ræða þessi mál. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði um að færa tollhöfnina frá Selfossi yfir til Þorlákshafnar. Ég er ekki alveg sammála því enda kemur það fram í þeim texta sem lagður hefur verið fram að það er ekki ætlun þessa máls. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er einmitt einn af flm. þessa máls en í raun skiptir það ekki höfuðmáli. Ég er afar þakklátur fyrir umræðuna. Ég er alveg viss um það þó ég sakni þess að hæstv. fjmrh. skyldi ekki hafa tekið þátt í umræðunni þá sé ég að hann hefur fylgst mjög grannt með og margoft kinkað kolli sem er ákveðin vísbending um það að hann taki vel í málið. Að lokum óska ég þess, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. og ég treysti á stuðning hæstv. fjmrh. í þessu máli.