Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:39:11 (4279)

2000-02-14 16:39:11# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er gott mál á ferðinni og ég lýsi yfir stuðningi við það. Ég starfa í hv. umhvn. Alþingis og kem til með að taka þetta vel til skoðunar þar. En ég vil samt segja hér og það verður aðalmálið í ræðu minni að þetta er örþrifaráð. Hér er verið að grípa til örþrifaráða til þess að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Auðvitað er það fullkomin ósvinna sem hér hefur verið við lýði að ekki eigi að taka til endurskoðunar áratugagamlar virkjanaheimildir þegar við búum núna við lög um mat á umhverfisáhrifum sem skylda okkur til að setja í lögformlegt mat allar framkvæmdir af því tagi sem hér um ræðir. Þetta er ósvinna, herra forseti, og mál að settur verði einhver punktur á eftir þessari sorgarsögu.

Nú ætti það auðvitað að vera svo að hér ættu að vera komin fram lög, þ.e. frv. til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þingheimur veit hef ég oftlega kallað eftir þeim lögum og hef fengið það svar frá hæstv. umhvrh., ég held það hafi verið 20. október sl., að það frv. væri væntanlegt á næstu vikum. Síðan fréttist af því skömmu eftir áramót að það frv. hefði verið lagt fram í ríkisstjórninni til kynningar en enn hefur þetta frv. ekki verið lagt fram á hv. Alþingi. Því má enn auglýsa eftir því frv. sem hefur verið í deiglunni og í burðarliðnum í meira en tvö ár. Samkvæmt drögum að því frv., sem voru til umsagnar ef ég man rétt seint á árinu 1998, er sólarlagsákvæði er lýtur að þessu bráðabirgðaákvæði. Þetta er því eitthvað sem menn hafa haft áhyggjur af og haft hug á að leiðrétta árum saman. Það er ríkisstjórnin sem hefur dregið lappirnar miklu lengur en góðu hófi gegnir í því að setja sólarlagsákvæði og girða fyrir slys af þessu tagi sem hér eru yfirvofandi og slys eins og við erum mögulega að upplifa í Fljótsdalsvirkjun.

Mig langar að segja, herra forseti, að það er annað sem er í uppnámi vegna þeirra heimilda sem eru til staðar og eiga að geta farið í framkvæmdir án þess að um mat á umhverfisáhrifum verði að ræða. Það er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um virkjanakosti sem eru í uppnámi. Það mæta fólk, sem hefur valist til að starfa við rammaáætlunina, situr auðvitað með þennan lista sem fylgir því frv. sem hér er til umræðu og það segir --- bíðum hæg, við eigum að raða virkjanakostum landsmanna og við eigum að forgangsraða og meta þá með tilliti til verndargildis, en hvernig getum við gert það þegar búið er að heimila svo og svo mikið af virkjunum og það virðist vera óbilgirni stjórnvalda sem ræður því að þessar framkvæmdir eigi ekki að fara í mat? Hið mæta fólk, sem starfar nú í starfshópum við að reyna að meta virkjanakosti landsins til frambúðar, stendur frammi fyrir því að búið er að veita þessar heimildir, það er fullt af virkjunum með grænt ljós og samt sem áður er búinn til stór hópur sem telur að hann hafi það hlutverk að raða virkjanakostum, en það er að vísu bara pínulítið af virkjanakostum sem eftir er, það er voða margt sem er búið að leyfa, en bara pínulítið sem þeir mega síðan raða. Ég fullyrði því, herra forseti, að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um virkjanakosti er í uppnámi vegna svona heimilda.

Það er meira en tímabært að settur sé punktur og sólarlagsákvæði í þessi lög, það hefði átt að vera gert fyrir löngu, og það er auðvitað orðið löngu tímabært að sú ríkisstjórn sem hér situr fari að haga sér eftir varúðarreglunni sem hv. ræðumaður á undan mér nefndi, sem er ein af meginreglum umhverfisréttar og æ fleiri þjóðríki eru að lögfesta. Má ég líka minna á það, herra forseti, að stjórnvöld á Íslandi sæta nú skoðun fyrir Evrópudómstólnum vegna kæru sem þar liggur fyrir vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ég trúi því ekki að íslensk stjórnvöld ætli að kalla yfir sig fleiri kærur af slíku tagi. Svo eru mögulega í uppsiglingu frekari átök innan lands út af þeim heimildum sem eru hvað mest til umræðu núna, þ.e. heimildinni til Fljótsdalsvirkjunar.

Það er orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin móti sannfærandi virkjunarstefnu. Þetta hefur allt verið tilviljanakennt og hipsum haps. Það er mál að linni. Það er mál að þessar heimildir verði allar settar undir þann hatt að þær þurfi að lúta lögum um mat á umhverfisáhrifum.