Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:49:32 (4281)

2000-02-14 16:49:32# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að ef þetta frv. yrði samþykkt óbreytt, þá þýddi það að Fljótsdalsvirkjun færi í mat á umhverfisáhrifum. En Alþingi er nýbúið að fjalla mjög ítarlega um það mál og þar var því hafnað á lýðræðislegan hátt af meiri hluta í atkvæðagreiðslu og síðan var samþykkt að halda áfram með framkvæmdina með meiri þingmeirihluta en stjórnarflokkarnir hafa á bak við sig þannig að það er nokkrum sinnum búið að fjalla um Fljótsdalsvirkjun á hinu háa Alþingi og með þeirri niðurstöðu að menn vilja halda áfram með framkvæmdina. Þetta frv. er því á skjön við þá niðurstöðu Alþingis sem enn á ný varð ljós núna skömmu fyrir jól.

Að sjálfsögðu stendur bráðabirgðaákvæði II í lögunum eins og það er í dag og með þeirri hugsun er það sérstaklega undirstrikað að lögin eigi ekki að vera afturvirk, þ.e. lögin um mat á umhverfisáhrifum. Það er enn frekar hnykkt á því með bráðabirgðaákvæði II. En almenna reglan er að lög eru ekki afturvirk. Í þessu frv. er hins vegar farið fram á að Alþingi breyti bráðabirgðaákvæðinu þannig að allar framkvæmdir sem þar eru taldar upp fari í mat á umhverfisáhrifum þannig að það verði engin undanþága.

Ég er sammála þeirri meginhugsun sem fram kemur í greinargerð frv., þ.e. að æskilegt væri að meta umhverfisáhrif framkvæmda á þeim tíma sem framkvæmdin er að fara í gang, þ.e. menn eigi ekki að taka ákvörðun og fara í framkvæmdina löngu seinna, jafnvel áratugum seinna, eins og hér var dregið fram. Ég vil undirstrika í því sambandi að það væri æskilegt að hafa lögin þannig að menn endurspegluðu líðandi stund. Ég er því sammála því meginviðhorfi að eðlilegt sé að það séu einhvers konar sólarlagsákvæði inni í lögum um umhverfismat þannig að þessi leyfi fjari út. Ég tel að það sé eðlilegt að það komi til skoðunar hér þegar við skilum af okkur nýju frv. til laga um umhverfismat sem er núna í vinnslu og sú er hér stendur taldi reyndar að það mundi nást að ná því fram fyrir áramót. En það tókst ekki. Ég lýsi mig því sammála meginhugsun frv.

Ég vil ítreka varðandi Fljótsdalsvirkjun, því að einhverjir gætu spurt af hverju þetta eigi ekki við um Fljótsdalsvirkjun, að það á reyndar við þar sem við tókum ákvörðun um það mál núna rétt fyrir jól. Þá fórum mjög ítarlega yfir það þar sem umfangsmiklar rannsóknir voru lagðar til grundvallar þannig að málefni Fljótsdalsvirkjunar voru afgreidd á hinu háa Alþingi í anda þeirrar umhverfisstefnu sem við búum við núna þar sem hv. þingmenn vilja gjarnan halda áfram með þá framkvæmd. Þó þeir viti að svæði uppi á hálendinu fara undir vatn við þá framkvæmd þá mátu þingmenn það svo að önnur atriði vægju það þungt að eðlilegt væri að halda áfram við framkvæmdina, þá á ég við efnahagslega þætti og þætti sem snúa að byggðaþróun.

Varðandi það sem hér kom einnig fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að það væri engin virkjunarstefna, þá vísa ég því á bug en vil sérstaklega undirstrika að við erum að fara í gang með víðtæka vinnu, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem kölluð er Maður, nýting, náttúra, þar sem meiningin er að reyna að koma þessari stefnu í fastara form með víðtækari skoðun en kannski hingað til hefur tíðkast þar sem menn hafa skipað bæði verkefnastjórn og fjóra faghópa, undirhópa sem eiga að fara í þessa umfangsmiklu vinnu og hún mun taka einhver ár að mínu viti. Ég vona að við klárum hana á kjörtímabilinu en ég er ekki viss um að það takist. Það verður þá í upphafi næsta kjörtímabils sem sú vinna klárast. Þar á sérstaklega að hafa að leiðarljósi m.a. náttúrufarsþætti, þá á að skoða og það á að gefa þeim möguleika sem við höfum á að virkja fallvötn og jarðvarma vægi þannig að menn fari ekki í framkvæmdir sem eru taldar hafa umtalsverð umhverfisáhrif nema þær séu þá það mikilvægar gagnvart efnahagsþróun og byggðaþróun að menn telji að það réttlæti slíkar framkvæmdir. Ég bind miklar vonir við þessa rammaáætlun og tel að hún geti fleytt okkur fram á veginn við að reyna að ná sátt um þessi virkjanamál sem hafa verið mjög til umræðu á þessu missiri í þinginu.