Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:04:11 (4286)

2000-02-14 17:04:11# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér ræddi hæstv. umhvrh. um þáltill. sem Alþingi samþykkti í lok desember að því er skilja mátti á máli hæstv. ráðherra á lýðræðislegan hátt og því verður ekki á móti mælt. Hitt verður að draga fram í dagsljósið vegna þess að það er dagurinn í dag þar sem 44 þúsund kjósendur lýstu því yfir með undirskrift sinni að þeir væru ósammála þeirri ákvörðun Alþingis sem hér var tekin, að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun skyldi haldið áfram. Má ég benda hæstv. umhvrh. á að á bak við Framsfl. hér á þingi standa einungis rúmlega 30 þúsund kjósendur? Við erum að tala um 44 þúsund kjósendur sem lýsa yfir eindregnum óskum um það að Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum og telji það vera leikreglur lýðræðisins. Sú þáltill. sem hæstv. ráðherra segir að hér hafi farið í gegn fór vissulega í gegn á lýðræðislegan hátt en með valdníðslu hæstv. ríkisstjórnarflokka.

Mig langar til að fá að heyra það af munni hæstv. umhvrh. hvort hún telji eðlilegt að fólkið sem starfar að rammaáætluninni sé bundið af þeim leyfum sem eru nú þegar gefin út, leyfum til a.m.k. níu virkjana. Hvernig telur hæstv. umhvrh. að það fólk geti unnið störf sín með þessi óskilgetnu afkvæmi sem standa þarna fyrir utan lög og rétt? Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að fólk sinni faglegum skyldum með þetta hangandi yfir höfðinu, hvorki meira né minna en níu virkjanir, herra forseti?