Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:06:05 (4287)

2000-02-14 17:06:05# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að í morgun komu fram undirskriftalistar en það er deginum ljósara að þrátt fyrir það að 44 þúsund manns krefjist lögformlegs umhverfismats og skoðanakannanir hafi sýnt um 80% stuðning, að mig minnir, við það að fram fari lögformlegt umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun, þá er jafnljóst að skoðanakannanir sýndu að sama hlutfall, um 80% fólks, vissi ekki hvað lögformlegt umhverfismat eiginlega er.

Það hefur farið fram umhverfismat, það er ekki þetta svokallaða lögformlega umhverifsmat, en það hefur farið fram mat á þessari virkjun. Það hafa komið fram víðtækar upplýsingar --- það eru fleiri sem ætla að taka þátt í umræðunum hérna. Það er gott að þetta lendir ekki á okkur sem stöndum í pontunni. Maður hefði getað haldið kannski að þetta væri hluti af undirskriftasöfnuninni sem kæmi hérna fljúgandi. (Gripið fram í: Viðbótarlistar.) Viðbótarlistar. --- Það er alveg ljóst að það hefur farið fram mat á þessari framkvæmd þannig að alls ekki er hægt að stilla málum upp eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði að segja að Alþingi stundi valdníðslu. Hér ákvað meiri hluti þingmanna að framkvæmdin ætti ekki að fara í lögformlegt umhverfismat eins og margoft hefur verið tekin ákvörðun um áður og meiri hluti þingmanna ákvað líka að halda áfram með framkvæmdina í óbreyttum farvegi. Það voru fleiri sem studdu þá ákvörðun en eru á bak við stjórnarflokkanna og hér er mjög sterk ríkisstjórn með sterkan þingmeirihluta. Eigi að síður fengum við enn meiri stuðning við þá ákvörðun en stjórnarflokkarnir hafa á bak við sig þar sem fjórir þingmenn frá Samfylkingunni studdu þá ákvörðun.