Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:46:10 (4294)

2000-02-14 17:46:10# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að hún teldi ekki vera æskilegt að svo stórar ákvarðanir yrðu teknar áður en rammaáætlun lægi fyrir og að rammaáætlunin ætti að vera sáttaleiðin, ég er svo sannarlega sammála því. Hins vegar virtist hæstv. ráðherra ekki vera alveg viss um sig í svörunum því að hún bætti við ýmsum varnöglum hvað það varðaði að komið gæti til þess að einhverjar ákvarðanir yrðu teknar á þessu tímabili.

Ég tel því að full ástæða sé til að spyrja hæstv. ráðherra nákvæmlega um það hvort hún telji koma til greina að svo stórar ákvarðanir verði teknar, eins og sú sem ég var að nefna áðan, Kárahnjúkavirkjun, á meðan ekki liggur fyrir sú rammaáætlun sem hér er verið að tala um.