Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:47:17 (4295)

2000-02-14 17:47:17# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get lítið annað gert en ítreka fyrra svar mitt við þessari spurningu sem er að ég tel það ekki í anda þeirrar vinnu sem við erum að fara í gang með um rammaáætlunina að taka út einstaka stórvirkjanir en hins vegar verð ég að setja þann varnagla að margt getur gerst á þeim árafjölda sem sú vinna mun standa. Það getur ýmislegt komið upp á sem þarf að taka til skoðunar. Maður getur ekkert útilokað í framtíðinni varðandi það.

Ég tel að vinnan verði umfangsmeiri en menn kannski gera sér grein fyrir en lagt var upp með það á sínum tíma að reyna að klára þessa vinnu á yfirstandandi kjörtímabili. Ég hef vissar efasemdir um að það takist og sé alveg eins fyrir mér að það takist ekki fyrr en á næsta kjörtímabili og að sjálfsögðu getur ýmislegt komið upp á á þeim tíma. Það er svo margt sem gerist í umhverfi okkar. Það er því ekki hægt að útiloka með öllu að slíkt gæti komið til skoðunar.

Ég ítreka að það væri ekki í anda þeirrar vinnu sem ég sé fyrir mér að fari í gang. Ég tel því að það sé frekar ólíklegt að slík staða komi upp en ég get ekki útilokað það. Mér finnst ekki heiðarlegt af mér að útiloka algerlega að sú staða gæti komið upp og þá verðum við auðvitað að taka á því en ég vil ítreka að það væri ekki í anda þessarar vinnu.