Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:48:52 (4296)

2000-02-14 17:48:52# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel því miður að hæstv. ráðherra hafi verið að innsigla það með seinna andsvari sínu að hún óttist að upp muni koma einhver mál sem muni verða tekin og afgreidd á þessu tímabili. Auðvitað veit hæstv. ráðherra að það mun þurfa að svara Norsk Hydro með það hvert eigi að vera framhaldið vegna álvers á Austurlandi og slíkt fyrirtæki fer ekki af stað ef það veit ekkert um hvað fram undan er í þeim stóru áætlunum sem verið er að gera. Ég tel þess vegna að hæstv. ráðherra sé að ganga svolítið lengra en ég a.m.k. átti von á með því að vísa til þess að þetta mundi vera gegn anda þess að skapa slíka rammaáætlun því að hún veit, að ég tel, að menn muni ekki geta vikið sér undan því að ganga betur frá málum hvað varðar virkjanir fyrir austan til að af þeim fyrsta áfanga verði sem fyrir liggur sem menn ætla sér í austur á landi.

Þess vegna verð ég að lýsa yfir því að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa getað kveðið skýrar að orði og kveðið upp úr með það að hún ætlaði sér að standa við það að þessi rammaáætlun yrði til án þess að stórar ákvarðanir yrðu teknar á því tímabili sem liði þangað til hún tæki gildi.