Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:58:16 (4300)

2000-02-14 17:58:16# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frv. sem ég mælti fyrir í fjarveru hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.

Eðli þessa frv. sem við ræðum felur í rauninni í sér tilraun til að leita sátta í virkjunarmálum. Samkvæmt frv., ef það yrði gert að lögum, mundi það þýða að allar heimildir til virkjana sem núna er að finna í gildandi lögum yrðu í reynd afnumdar nema þær færu í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Það er rétt hjá hæstv. umhvrh. að samkvæmt frv. mundi Fljótsdalsvirkjun, sem hér hefur mikið verið deilt um, þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum. Ég hef hins vegar lýst því yfir fyrir hönd okkar samfylkingarmanna að við erum reiðubúin til þess að slaka því út til að reyna að ná sáttum í þessu máli og gerum okkur alveg grein fyrir því að menn eru búnir að tala það mál til enda hér í þessum sölum og algerlega skýr afstaða liggur fyrir. Ég bendi hins vegar á, herra forseti, að þetta frv. var lagt fram áður en það mál var leitt til lykta.

Ég held að nauðsynlegt sé að menn læri af þeim deilum og reyni að forðast aðrar slíkar. En nokkrar gætu verið í uppsiglingu ef marka má svörin sem hér hafa komið frá hæstv. ráðherra.

Það liggur t.d. fyrir að í gildandi lögum frá 1981 er heimild til virkjana á hálendinu sem mundi hafa í för með sér að einhver hluti Þjórsárvera kynni að lenda í hættu. Þjórsárver eru eins og flestir vita alþjóðlegt verndarsvæði í krafti Ramsar-samningsins sem Íslendingar urðu aðilar að árið 1977. Þjórsárver voru tilnefnd af Íslands hálfu sem Ramsar-svæði og í þeirri tilnefningu fylgir að Íslendingar verða að gæta þess að raska ekki svæðinu, það fylgir aðild okkar að samningnum.

Nú blasir það við, sennilega flestum að óvörum þangað til svar fyrrv. iðnrh., Finns Ingólfssonar, kom fram við fyrirspurn hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að heimild er í lögum fyrir virkjun sem getur laskað þetta viðkvæma svæði. Ég hef þess vegna varpað fram þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. hvort hún sé reiðubúin til að lýsa því hér yfir að ekki verði ráðist í neinar virkjunarframkvæmdir sem gætu laskað Þjórsárver nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Hæstv. ráðherra hefur enn ekki svarað því en samkvæmt lögunum sem eru í gildi, þá er það kleift.

[18:00]

Þegar hæstv. iðn.- og umhvrh. settu á fót sérfræðingahóp til þess að vinna að rammaáætluninni Maður, nýting, náttúra þá held ég að þeir ráðherrar hafi ekkert frekar en þingmenn stjórnarandstöðunnar gert sér grein fyrir því að í gildi voru heimildir til þess að ráðast í sjö til níu stórvirkjanir á hálendinu. Ég kalla stórvirkjanir ýmis stækkunaráform virkjana sem fyrir eru sem heimildir eru fyrir í lögum.

Það vekur eftirtekt mína að hæstv. ráðherra hefur hafnað því að svara afdráttarlausum spurningum sem til hans hefur verið varpað. Í tilefni af þessu frv. dró hæstv. ráðherra sjálf inn í umræðuna frv. að nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum sem hún á auðvitað fyrir löngu að vera búin að leggja fram. Hún nefndi að þar væri að finna sólarlagsákvæði. Í því ákvæði fælist að innan tiltekins tíma mundi virkni núgildandi bráðabirgðaákvæðis II við lögin frá 1993 sem undanþiggja tilteknar framkvæmdir mati á umhverfisáhrifum, deyja út. Ég hef spurt hæstv. ráðherra: Hvaða tímamörk eru í þessu sólarlagsákvæði? Það er ekki að ófyrirsynju og ekki ósanngjarnt að ég kasta fram þessari spurningu og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari henni. Ástæðan er sú að þessi merka rammaáætlun er í vinnslu og hún er auðvitað hjóm eitt og ekki mikils meira virði en pappírinn sem hún kann einhvern tíma að komast á ef það liggur fyrir að það er hægt að ráðast í margar virkjanir á þeim tíma sem vinnan við áætlunina fer fram án þess að ráðist verði í mat á umhverfisáhrifum og án þess að viðkomandi sérfræðingahópur hafi nokkuð um það að segja. Þess vegna verður hæstv. ráðherra að greina okkur frá því hvaða tillögu hún mun gefa Alþingi um tímamörk þessa sólarlagsákvæðis.

Það er eftirtektarvert að hæstv. ráðherra segist vera sammála meginhugsuninni í frv. okkar samfylkingarmanna en hún treystir sér samt sem áður ekki til að lýsa því yfir að hún muni beita sér fyrir þeim sáttum sem í frv. felast, ekki heldur eftir að ég lýsti því hér yfir að við gætum fyrir okkar parta verið reiðubúin til þess að fallast á, í ljósi þess sem hér hefur gerst í vetur, að sá hluti frv. sem beinlínis tengist Fljótsdalsvirkjun yrði numinn brott.

Ég tel að eitt af því markverðasta sem hefur komið fram í umræðunni í dag sé sú óvissa sem af hálfu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. af hálfu hæstv. umhvrh., ríkir um stöðu rammaáætlunarinnar. Hæstv. ráðherra sagði að hún væri af hálfu ríkisstjórnarinnar tilraun til þess að ná sáttum í þeim viðkvæmu deilum sem enn ríkja meðal þjóðarinnar um virkjanastefnu. En hún treystir sér ekki, þrátt fyrir að hafa fjórum sinnum verið spurð að því af jafnmörgum þingmönnum, að lýsa yfir að það verði ekki ráðist í stórvirkjanir á meðan verið er að vinna þessa rammaáætlun. Jafnframt lýsti hæstv. ráðherra því yfir að sú vinna væri tímafrek og ekki gert ráð fyrir því að henni lyki fyrr en á næsta kjörtímabili og bætti því síðan við að hana uggði að þegar upp væri staðið reyndist vinnan enn tímafrekari en menn höfðu áður talið. Með öðrum orðum, það má draga þá ályktun af þessu að svo kynni að vera að það sé ekki fyrirhugað fyrr en undir lok næsta kjörtímabils að vinnunni verði lokið og við þingmenn sem þá sitjum hér fáum að sjá afraksturinn. Það tel ég auðvitað vera algerlega fráleitt.

Það sem skiptir máli er að ráðherrann hrekst undan og neitar að láta uppi skýra afstöðu. Hún segir að það væri að hennar áliti ekki í anda rammaáætlunarinnar ef ráðist yrði í virkjanir, það væri ekki æskilegt. En svo bætti hæstv. ráðherra við að margt gæti gerst á þeim árafjölda sem tekur að vinna áætlunina. Á þeim tíma sagði hún enn fremur að margt gæti komið til skoðunar og klykkti síðan út með því að segja að ekki væri hægt að útiloka að sú staða kæmi upp að ráðist yrði í frekari stórvirkjanir.

Hæstv. ráðherra greindi reyndar frá því að til þess gætu legið tvenns konar rök, þ.e. byggðarök og efnahagsrök. Með öðrum orðum, ef það verður kreppa í landinu að mati hæstv. ríkisstjórnar þá virðist sem hæstv. umhvrh. telji verjanlegt að ráðast í frekari stórvirkjanir án þess að þær fari í mat á umhverfisáhrifum. Þetta finnst mér alveg forkastanlegt, herra forseti.

Ég vil líka geta þess að ég hef vaxandi efasemdir um gildi þess ferlis sem felst í mati á umhverfisáhrifum eins og það liggur fyrir í núgildandi lögum. Við sjáum hvernig hægt er, með því að nota þá aðferð sem ég hef kallað bútasaum Landsvirkjunar, að verðfella víðfeðm landsvæði með það beinlínis fyrir augum að því er virðist að ná síðar sátt um enn frekari virkjanir. Við sjáum þetta ótrúlega mikilvæga og verðmæta land norðaustan Vatnajökuls þar sem uppi eru áform sem eftir atvikum mættu segja að gerðu ráð fyrir, ef allt næði fram að ganga, svona fimm til sex virkjanakostum. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið nein tilviljun að menn fóru með þeim hætti í Fljótsdalsvirkjun sem ráðist var. Ef hæstv. ríkisstjórn tekst að reka fleyg í þau ósnortnu og víðfemu víðerni sem er að finna norðaustan Vatnajökuls með því að sökkva Eyjabökkum þá er auðvitað búið að verðfella landið og þá er hægt að byrja á því að tosa næsta bút í gegnum mat á umhverfisáhrifum og það verður miklu auðveldara vegna þess að þá er búið að draga úr gildi landsins vegna þess að það felst ekki síst í heildarmyndinni á svæðinu. Og með þessari aðferð bútasaumsins þá er ég viss um að Landsvirkjun tekst smám saman að ná áformum sínum í gegn illu heilli. Ég tala nú ekki um ef það verður með þeim aðferðum sem hér voru viðhafðar í vetur. Þetta þykir mér ákaflega miður.

En að lokum, herra forseti. Við eigum eftir að fá svar við þeim spurningum sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa varpað fram til hæstv. ráðherra. Ég hef nú reifað sumar aftur en ég spyr enn eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson: Hvaða svar ætlar hæstv. umhvrh. að gefa Norsk Hydro ef fyrirtækið fer fram á tryggingu fyrir því að ráðist verði í þær virkjanir sem þarf til þess að reka 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði áður en lokið er vinnu við rammaáætlunina?