Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:09:07 (4302)

2000-02-14 18:09:07# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:09]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessa dags. Umræðunni er að ljúka og það liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað ýmsum spurningum sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa varpað fram. Ég vek sérstaka eftirtekt á spurningum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur.

Ég varpaði fram tveimur spurningum til hæstv. ráðherra. Önnur var þessi: Hvaða tímamörk er að finna í sólarlags\-ákvæðinu í komandi frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum og hæstv. ráðherra hefur upplýst okkur um að er partur af lögunum? Hæstv. ráðherra vill ekki svara því. Við höfum spurt: Getur verið að þau tímamörk verði þannig að þær átta til níu stórvirkjanir sem heimildir eru fyrir í gildandi lögum rúmist innan tímamarkanna? Er það í reynd þannig, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn með vitund hæstv. umhvrh. áformi að ráðast í einhverjar af þessum virkjunum sem heimildir eru til um í krafti gamalla og stundum áratuga gamalla laga án þess að láta þær fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum? Ég óttast, herra forseti, að sú sé staðreyndin og að feluleikur hæstv. ráðherra í málinu helgist af því.

Í annan stað spurði ég, herra forseti: Hvaða tryggingu getur hæstv. ráðherra gefið fyrir því að ekki verði veitt jákvætt svar við óskum Norsk Hydro um frekari orkuöflun á svæðinu norðaustan Vatnajökuls ef þær óskir koma fram áður en sérfræðinganefndin sem vinnur að rammaáætluninni lýkur störfum? Hæstv. ráðherra segir: ,,Það eru engar tryggingar.`` Hvað er hæstv. ráðherra að segja með þessu? Hún er að segja að í besta falli sé búið að taka allt hið víðfeðma landsvæði, sem eru stærstu ósnortnu víðernin í Evrópu norðaustan Vatnajökuls, undan þessari vinnu. Hún er að segja, herra forseti, í reynd að starf sérfræðinganefndarinnar að rammaáætluninni skipti ekki máli í hennar augum.