Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:14:11 (4305)

2000-02-14 18:14:11# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir það að hér hefur átt sér stað mjög góð umræða um grundvallaratriði og ég ætla ekki að lengja þá umræðu. Mörgu hefur verið gerð skil af því sem við í Samfylkingunni höfum staðið fyrir og litlu er að bæta við það sem fram kom í síðustu ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem var talsmaður okkar í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Hins vegar fer ríkisstjórn fram eins og við urðum vitni að fyrir jól. Umhvrh. hverrar ríkisstjórnar hefur sérstöðu. Hlutverk umhvrh. í ríkisstjórn er að gæta annarra hagsmuna en ríkisstjórnarinnar almennt. Það er veganesti umhvrh. í ríkisstjórn að náttúran njóti vafans.

Hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir birti okkur framtíðarsýn sína í umræðunni áðan. Hún sagði jafnframt að Alþingi væri búið að afgreiða stuðning sinn við virkjunina í Fljótsdal. Það er stuðningur við virkjunina sem heimild var fyrir frá 1982. Fram hjá því verður ekki komist. Landsvirkjun ætlar að skoða það í sumar hvort ástæða sé til að hækka stífluþilið við virkjunina í Fljótsdal. Það dugir að hækka stífluþilið um þrjá metra því þá þarf ekki að virkja annars staðar til að fá orku fyrir 120 þús. tonna álver. Því spyr ég ráðherrann, af því að ekki er heimild fyrir virkjun með þetta hærra stífluþili, það liggur líka fyrir: Hvað gerir ráðherrann ef niðurstaðan verður sú að það borgi sig að hækka stífluþilið? Hvað gerir ráðherrann með þá framtíðarsýn og þau faglegu vinnubrögð sem okkur voru kynnt hér í umræðunni? Ég krefst þess, virðulegi forseti, að ráðherrann svari þessari spurningu.