Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:25:40 (4307)

2000-02-14 18:25:40# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög góð og löng umræða um það frv. sem er til umfjöllunar. Ég tel mér ekki skylt að svara í smáatriðum ýmsu er varðar þætti sem eru ekki til umfjöllunar eins og um rammaáætlunina. Þó hún tengist þessu frv. að vissu leyti mjög sterkt er ég ekki í stakk búin til þess að svara. Menn verða að virða það við umhvrh. að hann er ekki tilbúinn til að svara í smáatriðum ýmsu er varðar rammaáætlunina á þessari stundu þar sem ég var ekki undirbúin fyrir það. Eigi að síður ætla ég að reyna að svara ýmsu og hef reynt að gera það eftir bestu getu.

Varðandi þá spurningu sem kom fram, bæði hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur um þá könnun sem ég heyrði að Landsvirkjun ætlaði að gera í sumar á stífluþilinu, hvort æskilegt væri að hækka það eins og mér skildist á þeim upplýsingum sem komu fram áðan um 3 metra, þá er spurt eitthvað á þessa leið, virðulegi forseti: Hvað gerir umhvrh. ef niðurstaða Landsvirkjunar verður að hækka stífluþilið þar sem ekki er heimild fyrir því án umhverfismats? Mér finnst að það segi sig eiginlega sjálft að ef það er engin heimild fyrir slíku án umhverfismats, þá gilda að sjálfsögðu lögin, þá þyrfti að fara í umhverfismat á slíku. En það má vera að spurningin sé mun flóknari en ég átta mig á hér á þessari stundu. Ef svo er þá þyrfti ég að skoða það betur hvernig hægt væri að svara henni. En eins og spurningin er sett fram í umræðunum liggur hún svona fyrir. Hvað gerir ráðherrann ef niðurstaða Landsvirkjunar verður að hækka stífluþilið þar sem ekki er heimild fyrir því án umhverfismats?