Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:28:08 (4308)

2000-02-14 18:28:08# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægð með að ráðherra komi og ræði þessa stöðu við okkur með hækkunina á stífluþilinu í Fljótsdalsvirkjun og ég vænti þess af ráðherranum að hún mundi tjá sig um þetta mál. En ég vil að það sé alveg ljóst hvað við erum að tala um. Ef Landsvirkjun hefði fyrir fram, áður en við tókum málið til umræðu á þingi, hækkað stífluþilið um 3 metra, þá er búið að breyta hönnuninni á Fljótsdalsvirkjun og það fellur ekki lengur undir lögin sem Alþingi var að staðfesta fyrir jól.

Það er óumdeilt af hálfu allra sem um það hafa fjallað að ef stífluþilið er hækkað fyrir fram þegar ákvörðun er tekin er gömul samþykkt fyrir bí. Þess vegna er spurningin ekki bara um að hækka um 3 metra og það er ekki verið að spyrja um það hvort eigi að fara með 3 metra hækkun á stífluþili í umhverfismat heldur sú breyting sem Landsvirkjun kemst hugsanlega að og hefur margoft komið fram í umræðunni en var endanlega kveðið upp úr með á síðasta fundi iðnn. áður en málið var tekið út úr nefnd þar sem Landsvirkjun tjáði sig um að þeir mundu skoða kosti þess í sumar, þá er í raun og veru búið að breyta framkvæmdinni sem Alþingi var að afgreiða í desember. Um leið og niðurstaðan væri sú að fara ekki í viðbótarvirkjun í Kröflu eða í Bjarnarflagi heldur hækka stífluþilið, veita inn í það frá Sauðaveitunum, þannig að það kemur miklu meira vatnsmagn inn, þá dugir þessi virkjun en þá er búið að breyta virkjuninni í grundvallaratriðum og þess vegna er spurningin sú: Hvað gerir ráðherrann ef það verður niðurstaðan?