Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:32:08 (4310)

2000-02-14 18:32:08# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:32]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Sturla D. Þorsteinsson, Einar K. Guðfinnsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Halldór Blöndal. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að beina því til umhverfisráðherra að fela Veðurstofu Íslands að nota íslensku hugtökin logn, hægur vindur, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri eins og við á í veðurlýsingum og veðurspám í ljósvaka- og prentmiðlum samhliða metrum á sekúndu þegar lýst er veðurhæð.``

Herra forseti. Íslenskt mál hefur að fornu og nýju verið hornsteinn íslenskrar menningar og sá aflvaki sem knúði áfram baráttu okkar fyrir sjálfstæði. Með íslenskunni höfum við haldið sérstöðu okkar meðal þjóða og skilið þjóðararfinn sem Íslendingasögurnar eru. Mörgum þótti að vísu íslenskan orðin æðidönskuskotin um síðustu aldamót eftir aldalanga ráðsmennsku Dana með íslensk málefni. Það var hins vegar íslenska sveitamenningin og aldamótakynslóðin sem bjargaði tungunni. Það finnst reyndar mörgum nóg um hversu mikil áhersla er lögð á að íslenska erlend orð eins og tækniheiti og aðlaga málinu. Það hefur þó ekki veitt af, enda ljóst að okkar litla málsamfélag yrði fljótt að hverfa ef undanlátssemi ríkti að þessu leyti. Þess vegna er það krafa að þeir sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt læri íslensku. Með því móti geta nýbúar tileinkað sér íslenska menningu og komið er í veg fyrir einangrun þess fólks. Fordómar og misskilningur eru því minni hér á milli nýbúa og annarra en víðast hvar annars staðar þar sem innflytjendur eiga í hlut. Með þetta í huga hef ég og meðflutningsmenn mínir lagt fram þá till. til þál. sem hér er til umræðu.

Við teljum breytingar á veðurmáli hjá Veðurstofu Íslands skaðlegar fyrir íslenska tungu og málvitund. Veðurstofa Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í mótun og meðferð íslenskrar tungu hjá almenningi og hafa verið þar miklir málvöndunarmenn og aðdáendur íslenskrar tungu. Þó er þar eins og annars staðar tilhneiging til að beygja sig skilyrðislaust fyrir því sem kemur að utan. Þannig upplifi ég þá ákvörðun Veðurstofunnar sem þróast hefur að nota ekki lengur hin gömlu íslensku veðurheiti, logn, hægur andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri sem fylgt hafa íslensku máli frá öndverðu.

Herra forseti. Rök Veðurstofunnar eru þau að þessi hugtök séu ekki nægjanlega nákvæm til að þjóna nútímalýsingu á veðri og veðurspám og þetta falli ekki inn í alþjóðaskilgreiningar um lýsingu á veðurhæð. Ég get að vísu alveg fallist á að nákvæmara er að tala um 10 metra á sekúndu heldur en kalda. Veðurspár eru þó ekki þannig að talað sé um eina tölu heldur er talað um 10--13 metra á sekúndu o.s.frv. Þó svo nákvæmni tölustafa sé meiri er ekki endilega nauðsynlegt að fella út notkun þeirra gömlu og góðu íslensku orða sem við höfum notað frá alda öðli í daglegu máli. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að samhliða orðunum logn, hægur vindur, andvari o.s.frv. megi nota mælinguna metra á sekúndu. Það má segja í veðurspám í sjónvarpi og útvarpi t.d. kaldi, 10 metrar á sekúndu, eða það sem við á. Með því höldum við íslensku orðunum og nýtum okkur nákvæmari mælingu.

Það skerpir einnig skilning manna á þessum gömlu orðum sem oft eru á reiki hjá almenningi hin síðari ár eftir að veður varð minna afgerandi þáttur í daglegu lífi fólks. Erlendis verður maður ekki svo mikið var við notkun þessara nýju orða að við þurfum að verða kaþólskari en páfinn að þessu leyti.

Herra forseti. Ég er hræddur um að ef við gefum eftir í þessu máli verði ekki langt þangað til ekki teljist nægilega nákvæmt að tala um norðan, norðaustan, austan, suðaustan, sunnan, suðvestan, vestan og norðvestan áttir. Auðvitað er miklu nákvæmara að tala um gráðurnar frá 0 og upp í 360. Þá getur veðurlýsingin verið þannig: 45°, 10 metrar á sekúndu, í stað norðaustan kaldi.

Auðvitað er veðurspá fyrir flugvélar og skip með öðrum hætti en í sjónvarpi og útvarpi til almennings. Þessir aðilar fá einnig sínar spár í gegnum fax og gervitungl frá erlendum stöðvum. Þess vegna er það ekki hluti af þessu máli sem hér er til umræðu. Við erum því ekki að tala um þessa aðila heldur almenning á Íslandi.

Veðurspáin íslenska mun ekki viðhaldast ef allar lýsingar verða gefnar upp í tölustöfum. Áhrif sjónvarps og útvarps að þessu leyti eru svo mikil að þessi hluti málsins mun hverfa úr daglegu máli fólks smám saman. Við það mun okkar fagra mál tapa miklum hluta af sjarma sínum og við um leið tapa hluta af sjálfstæðinu. Það má orða það þannig að veðurorðin fjúki út í veður og vind.

Auðvitað er notkun veðurhugtaka einnig oft misjöfn eftir landsvæðum eins og komið hefur fram í bókum. Til dæmis segir Páll Bergþórsson veðurfræðingur í bók sinni Loftin blá að orðið ,,hríð`` hafi misjafna merkingu. Víðast merkir orðið hríð snjókoma en t.d. í Borgarfirði syðri getur það einnig þýtt skúr og þá kallað hríðarskúr þó hiti sé 10 stig.

Veðurfræði, herra forseti, nefnist ,,meteorology`` á erlendu máli. Veðurfræðin hefur þróast með mannkyninu, enda allar okkar athafnir háðar veðrum og vindum. Úr þessu hefur að sjálfsögðu dregið mikið í daglegu máli en í bókmenntum og kveðskap er óhemjumikil tenging í veður. Það á að sjálfsögðu ekki síst við á Íslandi þar sem stormar eru stríðir. Það fer mjög eftir landsvæðum hve veður eru misjöfn eins og alþjóð veit. Það kemur fram t.d. í bók Jóns Eyþórssonar veðurfræðings þar sem tekið er saman hversu margir stormdagar eru á nokkrum stöðum á landinu yfir árið að meðaltali árin 1931--1940. Þar kemur í ljós að stormdagar voru 52 í Vestmannaeyjum á ári að meðaltali, í Reykjavík voru þeir 9, á Suðureyri við Súgandafjörð voru þeir 20, í Grímsey 14, í Papey 24 en í Teighorni í Berufirði rétt aðeins 7. Það er því augljóst að Vestmanneyingar þurfa sex sinnum oftar að hafa storminn í fangið en Reykvíkingar. Við getum líka sagt á nútímamáli, herra forseti, að Vestmanneyingar þurfi sex sinnum oftar að hafa 20 metra á sekúndu í fangið en Reykvíkingar.

Herra forseti. Ef við lítum á íslenskan kveðskap og kjarnyrt og meitluð orð í honum eins og í kvæðinu Stjána bláa í bókinni Illgresi eftir Örn Arnarson finnum við sjarmann í málinu. Mig langar að koma með nokkur dæmi þar um, með leyfi forseta, en ein vísan hljóðar svo:

  • Norðanfjúkið, frosti remmt,
  • fáum hefir betur skemmt,
  • sýldi hárið, salti stemmt,
  • sævi þvegið, stormi kembt.
  • Þannig hljóðar ein af þessum mögnuðu vísum um Stjána bláa. Hvernig þessi orð verða skilin í samhengi ef málið breytist í grundvallaratriðum skal ég ósagt látið, en það getur hver fyrir sig velt því fyrir sér.

    Það er einnig, herra forseti, gaman að lesa bækur um veður eins og eftir þann mikla málsnilling Þórð Tómasson frá Vallnatúnum undir Eyjafjöllum í bókinni Um veðurfræði Eyfellings. Þar lýsir hann hvernig fólk las í atferli dýra um veðrabrigði. Það vissi á storm og illviðri ef hross höfðu mikil hlaup í haga. Sagði fólk þá að rok væri í rassinn á þeim. Einnig að vetrarbrautin hvikaði undir storm og ef tunglið var stafnahvasst sagði veðurreynd manna undir Eyjafjöllum að veður yrði hvasst. Hann segir frá einni vísu sem er ansi skemmtileg og hljóðar svo:

  • Veltast í honum veðrin stinn,
  • veiga mælti skorðan,
  • kominn er þefur í koppinn minn,
  • kemur hann senn á norðan.
  • Þetta eru allt dæmi um hvernig notkun á veðrinu kemur inn í söguna og ljóðin í gegnum tíðina og auðgar málið stórkostlega. Margt hefur að sjálfsögðu breyst í málinu eins og þegar talað er um déið. Það kemur vel fram í vísu að vestan sem hljóðar svo:

  • Nordan hardan gerdi gard,
  • geysihardur vard hann.
  • Borgarfjardar ennis ard
  • ofan í skardið bard´ hann.
  • Herra forseti. Við flutningsmenn frv. vonumst til þess að þetta mál verði tekið til efnislegrar umræðu í hv. umhvn. og tekin efnisleg afstaða til þess. Í okkar huga er þetta alvörumál. Við erum ekki að beina spjótum okkar gegn nútímaveðurspám eða aðferðum sem nauðsynlegar eru til þess að ná nákvæmni. Við erum fyrst og fremst að hugsa um málið okkar, um íslenskuna sem okkur er kær og ef við eigum einhvers staðar að geta tekið það mál til umræðu er það í hv. Alþingi.