Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:50:37 (4312)

2000-02-14 18:50:37# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Prýðilega var þessi ræða flutt og vel gest mér að þeirri hugsun sem að baki liggur. Ást hv. þm. á íslenskri tungu er okkur öllum ljós sem njótum þess stundum að hlýða á hann í þessum sölum. Ég get fallist á það með hv. þm. að þessi orð yfir hin ýmsu heiti vinds við Ísland eru ákaflega falleg. Það væri missir að þeim úr málinu. En mér finnst nú samt sem hv. þm. seilist um hurð til lokunar þegar hann leitar skýringa í leti veðurfræðinga. Ég hygg að ekki sé hægt að segja að þessar breytingar sem Veðurstofan hefur beitt sér fyrir stafi af leti þeirra sérfræðinga sem sitja þar fyrir framan tölvur og af því einvörðungu að þeir nenna ekki að snúa á íslenskt mál það sem birtist á skjánum. Öðruvísi var þó ekki hægt að skilja þá skýringu sem hv. þm. gaf.

Ég held að miklu fremur megi leita skýringanna í því að veðurfræðingarnir sem hafa beitt sér fyrir þessu líta svo á að þetta sé nákvæmara. En jafnframt held ég líka að að baki liggi það viðhorf þeirra, hvort sem það er rétt eða rangt, að ekki skilji allir nákvæmlega hvað felst í þessum orðum. Ég geri það mætavel. En ég dreg í efa að ég hefði þann góða skilning sem ég tel að ég hafi á þessum heitum nema af því að ég er gamall sjómaður. Ég var í ein fimm eða sex sumur á sjó víðs vegar við landið og þar beittu menn þessum hugtökum. Ég er hins vegar ekki viss um að jafnvel jafnaldrar mínir sem komnir eru eins og ég hátt á fimmtugsaldur geti allir skýrt mjög nákvæmlega hvað í þeim felst. Ég held því að það sé miklu frekar viðleitni veðurfræðinganna að gera spár sínar aðgengilegri og skiljanlegri fólki sem liggi þarna að baki fremur en leti þeirra.

Ég ætla ekki að fara að deila við þessa hv. þm. sem fluttu þetta mál. Það er allra athygli vert. En ég mótmæli því fyrir hönd náttúrufræðinga að það sé leti sem liggur því að baki að þeir hafi beitt sér fyrir þessum breytingum.