Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:34:25 (4320)

2000-02-15 13:34:25# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fyrir skömmu tók viðskipta- og hagfræðideild að auglýsa framhaldsnám, meistaragráðunám, MBA-nám í viðskiptafræði og stjórnun og tengdum þáttum á heimasíðu sinni. Á heimasíðu deildarinnar er auglýst m.a. að öll námskeið séu á vegum viðskipta- og hagfræðideildar. Tekið er fram að um sé að ræða nám sem gefur meistaragráðu, sem sagt venjulega háskólagráðu og loks er tekið fram að kostnaður við námið verði á bilinu 1,2--1,4 millj. kr. fyrir hvern þátttakanda.

Þar af leiðandi, herra forseti, vakna ýmsar spurningar þegar þau tíðindi berast að skólagjöld af þessari stærðargráðu séu að koma til sögunnar í Háskóla Íslands og vekur nokkra furðu, m.a. þegar höfð eru í huga þau ákvæði sem um slíka gjaldtöku gilda í lögum og reglum um nám á háskólastigi á Íslandi.

Forsagan mun að vísu vera sú að deildin hefur áður haft hugmyndir um að taka upp mastersnám á grundvelli skólagjalda en háskólaráð hafnað slíku. Svo virðist sem hér sé valin sú leið að færa þetta venjulega framhaldsnám á háskólastigi undir hatt Endurmenntunarstofnunar til þess að fóðra þá miklu gjaldtöku sem hér er í bígerð. Nú ber að taka það fram að Endurmenntunarstofnun er sjálfstæð stofnun. Hún er ekki hluti af Háskóla Íslands sem slíkum. Hún er sjálfstæð stofnun með aðild fjölmargra utanaðkomandi aðila sem m.a. tilnefna menn í stjórn stofnunarinnar.

Í 13. gr. laga um Háskóla Íslands kemur fram að við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald allt að 25 þús. kr. Heimilt sé að taka 15% hærra gjald ef um skráningu utan auglýstra skrásetningartímabila er að ræða og punktur. Þetta eru þau skólagjöld sem lögin gera ráð fyrir að tekin séu við Háskóla Íslands, herra forseti.

Í 18. gr. sömu laga segir enn fremur, að ,,Háskóla Íslands`` --- ekki Endurmenntunarstofnun eða öðrum slíkum --- ,,skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita.`` Gagnályktun af þessu, herra forseti, hlýtur að vera sú að gjaldtakan er óheimil ef um er að ræða þjónustu sem fellur undir verksvið Háskóla Íslands og sá skilningur hefur verið lagður til grundvallar í öllum umræðum um skólagjöld og gjaldtöku hér á undanförnum árum, þ.e. að ekki sé heimild fyrir gjaldtöku nema þeirri sem skrásetningargjöldunum nemur þegar um er að ræða venjubundið háskólanám, starfsemi sem fellur undir lögin um hlutverk Háskóla Íslands.

Ég tel því, herra forseti, að það sé afar vafasamt fordæmi á ferðum þar sem er gjaldtaka af þessu tagi í venjulegu háskólanámi, þó það sé fært undir hatt Endurmenntunarstofnunar og látið að því liggja að þetta sé sérstaklega heppilegt fyrir fólk sem komi úr viðskiptalífinu sem slíkt, þá er hér um að ræða framhaldsnám á háskólastigi og öll rök brestur fyrir því að um það eigi að gilda annað en venjulegt nám í Háskóla Íslands að þessu leyti. Ég held því, herra forseti, að áður en þetta fer af stað sé nauðsynlegt að ýmsum spurningum verði svarað. Ég hef því leyft mér að leggja nokkrar spurningar í þessu sambandi fyrir hæstv. menntmrh.

Í fyrsta lagi. Telur menntmrh. það samrýmast lögum, ég á þá við lög um Háskóla Íslands og lög um nám á háskólastigi, að taka 1,2--1,4 millj. kr. í skólagjöld í væntanlegu meistaragráðunámi, framhaldsnámi á vegum viðskipta- og hagfræðideildar og Endurmenntunarstofnunar?

Í öðru lagi. Telur ráðherra þessa háu upphæð í skólagjöld, 1,2--1,4 millj. kr., eðlilega miðað við líklegan kostnað við þetta nám?

Í þriðja lagi. Telur ráðherra þróun í þessa átt æskilega? Sem sagt þróun í þá átt að framhaldsnám sem menn hafa í mörgum deildum Háskóla Íslands og jafnvel fleiri háskólum bundið vonir við að kæmist senn á á Íslandi, komi þá til sögunnar á þeim grundvelli að það verði alfarið fjármagnað með skólagjöldum.

Í fjórða lagi. Mun ráðherra aðhafast eitthvað í þessu máli? Ég bendi í því sambandi m.a. á þá skyldu ráðherra að staðfesta prófgráður, þar með talið væntanlega þá meistaragráðu sem hér á að taka upp.