Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:49:18 (4324)

2000-02-15 13:49:18# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það örlar á því að hæstv. menntmrh. sé að firra sig ábyrgð í þessu máli og varpa henni alfarið á herðar Háskóla Íslands. En hæstv. menntmrh. getur ekki annað en gengist við stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Um þessar mundir búa Íslendingar við stjórnvald sem leggur afar mikla áherslu á að menn greiði fyrir þá þjónustu sem í boði er. Þannig er lögð á það áhersla að sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar, fjármagnaðir í gegnum ríkjandi skattkerfi, afli sértekna í stöðugt vaxandi mæli. Það eiga allar stofnanir að gera og þar með talinn Háskóli Íslands.

Síðan verður að benda á að þrátt fyrir hækkandi skatttekjur virðist þessum stofnunum ætlað að standa enn meira undir sértekjum og afla enn frekari sértekna og maður spyr: Hvert fara auknar skatttekjur ríkissjóðs?

Maður skyldi ætla að fleiri kostir yrðu í boði til almennings miðað við hækkandi skatttekjur. Vissulega bjóðast ýmsir kostir en það er áberandi að það verður æ algengara að sá sem þjónustunnar nýtur þarf að greiða fyrir hana fullu verði. Þá er ekki einu sinni spurt að því hvaða fjárráð viðkomandi hefur. Þá eru allir jafnir.

Nú er svo komið að flest þjónusta sem er í boði í skólakerfinu er þess eðlis að við þurfum að greiða fyrir hana. Því oftar sem við erum krafin um svona greiðslu, því sljórri verðum við fyrir því kerfi sem er verið að innleiða. Það er mergur þess máls sem er til umfjöllunar, og nú er Háskóla Íslands, sameiginlegu fræða- og rannsóknasetri okkar, gert að standa undir æ stærri hluta rekstrarsviðs með sértekjum og hann grípur til örþrifaráða á borð við það sem hér er til umfjöllunar, býður MBA-nám fyrir 1,5 milljónir. Kannski er þetta gert í þeirri von að enginn átti sig á þessari ósvinnu eða ástæðunum sem liggja að baki. Hvers vegna er ekki boðið upp á þetta nám innan almenna kerfisins? Það er þó enn sæmilega aðgengilegt flestum nemendum burt séð frá efnahag þeirra og þetta, herra forseti, samrýnist ekki hugsjónum mínum um jafnan rétt til náms.