Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:51:47 (4325)

2000-02-15 13:51:47# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með að Háskóli Íslands sé að skipuleggja framhaldsnám sem þetta. Ég tel að slíkt nám sem er lagað að íslenskum aðstæðum og kennslan byggð á íslenskum raundæmum sé afar mikilvægt og líklegt til að nýtast vel á þeirri braut framfara og nýsköpunar sem við viljum gjarnan feta. Ég vona svo sannarlega að þarna fáist til þessa náms fjölbreyttur hópur þátttakenda af báðum kynjum.

Það sem kemur mér hins vegar á óvart er að þrátt fyrir það að margar hástemmdar yfirlýsingar hafi verið gefnar út af hæstv. menntmrh. í tengslum við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir rúmum mánuði um að fjármál háskólans hafi þar með verið leyst myndarlega treystir háskólinn sér ekki til að fara af stað með slíkt nám nema fara krókaleiðir í gegnum Endurmenntunarstofnun til að geta innheimt himinhá skólagjöld af þeim sem stunda það.

Á sl. vetri var samþykkt frv. um Háskóla Íslands þar sem ekki tókst að koma fram ákvæðum sem heimiluðu álagningu skólagjalda þrátt fyrir yfirlýstan áhuga hæstv. menntmrh. á slíku fyrirkomulagi. Nú er varla þornað blekið á þeim lagabálki þegar lauma á mjög eftirtektarverðri og athyglisverðri námsleið í gegn með mjög háum skólagjöldum, 1.250 þús. fyrir tveggja ára nám. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Það er skylda ríkisvaldsins að standa við bakið á Háskóla Íslands það myndarlega að hann geti boðið upp á áhugavert nám sem þetta án þess að seilast svona ofan í vasa nemendanna.

Auk þess er rétt að það komi fram að sú lausn sem hæstv. menntmrh. taldi sig hafa fundið á fjármálum skólans virðist hafa verið hillingar eftir þeim fréttum að dæma sem birst hafa í fjölmiðlum undanfarna daga um fjárhag stofnunarinnar.