Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:54:01 (4326)

2000-02-15 13:54:01# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli sem og ráðherra fyrir svör hans. Ég held að í upphafi sé rétt að taka það fram að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands hefur verið og er að vinna afskaplega merkilegt og gott starf sem hefur skilað sér í atvinnulífinu um allt land. Það hlýtur líka að vera fagnaðarefni að meistaragráða skuli vera að komast á koppinn.

Hins vegar má segja að þarna sé fulllangt seilst hvað varðar þá leið sem farin er við uppbyggingu þessa náms. Þetta snýr nefnilega að ákveðnu grundvallaratriði, svonefndum skólagjöldum. Það hefur verið þegjandi samkomulag um það á hv. Alþingi hvað varðar svokölluð innritunargjöld að halda þeim í því hófi sem verið hefur á síðustu árum og jafnvel áratugum en hér er um grundvallarbreytingu að ræða.

Það er rétt, herra forseti, að rifja það upp að þegar háskólafrv. var til umræðu, var því lýst yfir, m.a. af hæstv. ráðherra og öðrum hv. þingmönnum, að með því væri ekki verið að innleiða skólagjöld í þeirri merkingu sem ég lýsti hér, og ef til þess kæmi þyrfti það að koma til kasta Alþingis.

Hér er, herra forseti, jafnframt að því er virðist gengið fram hjá háskólaráði hvað varðar ákvarðanatöku í þessu. Ég er sammála því sem hæstv. ráðherra sagði að það er ekki eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi bein afskipti af málum meðan þau eru í vinnslu innan háskólans. Verði þetta hins vegar niðurstaðan, er augljóslega verið að innleiða skólagjöld og hljóta þau því að koma til kasta Alþingis. Ég lýsi mig andsnúinn þeirri leið að innleiða skólagjöld eins og þarna virðist eiga að gera og trúi því að verði þetta niðurstaðan, þá komi það til kasta hv. Alþingis.