Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:56:19 (4327)

2000-02-15 13:56:19# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Íslendingar hafa stært sig af velferðarþjónustu, þar með skólakerfi sem er opið öllum án tillits til efnahags. Á undanförnum árum hefur sú stefna stjórnvalda að hækka skólagjöld og setja á fallskatta sætt gagnrýni á þeirri forsendu að slík gjaldtaka torveldi efnaminna fólki aðgang að menntun, setji þröskuld við dyr menntastofnana landsins. Þessi gjaldtaka er þó barnaleikur miðað við það sem nú er að gerast og tekur steininn úr þegar fréttist af því að viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands ætli að selja aðgang að menntun og menntagráðum. Það hefur ekki gerst áður við Háskóla Íslands að boðið sé upp á háskólagráðu fyrir skólagjöld sem nemur þeirri upphæð sem hér um ræðir, 1,2--1,4 millj. fyrir hvern þátttakanda.

Fulllangt seilst, sagði síðasti ræðumaður, hv. fulltrúi Framsfl. Ætli það ekki? Þetta eru eins árs laun eins og þau tíðkast á vinnumarkaði.

Við þessa umræðu hafa verið settar fram spurningar sem nauðsynlegt er að fá greinargóð svör við. En fyrst og fremst vil ég fagna þessu tilefni til að geta mótmælt þessari misréttisstefnu og minnt á mikilvægi þess að fólk eigi jafnan aðgang að skólakerfinu óháð efnahagslegri stöðu sinni.

Stöðugt er hamrað á því opinberlega hve menntun og símenntun sé samfélaginu mikilvæg en ef þessi stefna nær fram að ganga yrði hún ekki ætluð öllum heldur yrði stéttskipt og það yrði stökk til fortíðar.

Hæstv. menntmrh. segist bíða niðurstöðu Háskóla Íslands. Við bíðum hins vegar eftir niðurstöðu ríkisstjórnar Íslands og að heyra afstöðu hæstv. menntmrh. til þessa. Við þekkjum reyndar stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er að svelta háskólann og aðrar stofnanir til þess að þröngva þeim til gjaldtöku af þessu tagi. Þess vegna gengur ekki að hæstv. menntmrh. skjóti sér undan ábyrgð með þessum hætti. Við krefjumst svara frá hans hendi.

Ég lít svo á að menntun sé íslensku þjóðfélagi mjög mikilvæg og brýnt að allir fái notið hennar. Ég beini því til hæstv. menntmrh. að þessi mál verði endurskoðuð frá grunni og Háskóla Íslands tryggðir fjármunir til að standa undir skyldum sínum við þjóðina alla.