Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:58:49 (4328)

2000-02-15 13:58:49# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það ber að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram en jafnframt viðbrögðum hæstv. ráðherra svo langt sem þau ná. Hins vegar er verið að gefa í skyn að þetta mál sé komið örlítið styttra en okkur sýnist sem lesum um þetta nám á heimasíðu viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Það virðist ljóst vera að búið sé að taka þær ákvarðanir sem skipta máli. Það er farið í raun að auglýsa eftir nemendum og það er ekki rétt að gefa í skyn að nemendur viti ekki hvað bíði þeirra við stofnun eins og Háskóla Íslands. Það er augljóst mál að verið er að fara á svig við lög, samanber þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla áðan. Í raun er verið að tengja Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands við þetta nám eingöngu til þess að fjármagna það. Það segir okkur þar af leiðandi um leið að það er skortur á fjármunum við Háskóla Íslands til að geta boðið upp á jafnmikilvægt nám sem þetta.

Það er annað líka sem athyglisvert er í þessu sambandi og það er að Háskóli Íslands býður upp á fleiri tegundir af meistaranámi. Þarna er augljóslega verið að mismuna nemendum eftir því hvaða námsleiðir þeir velja í þessu tilfelli. Það segir, með leyfi forseta, m.a. á heimasíðu viðskipta- og hagfræðideildar:

,,Kostnaður við námið verður 1.250.000 kr. Greiða skal 50.000 kr. staðfestingargjald í byrjun júní og síðan 300.000 kr. fyrir hvert missiri. Athygli er vakin á því að LÍN veitir lán fyrir þessum skólagjöldum.``

Herra forseti. Ég held að hér sé enginn vafi hvað á ferðum er og þess vegna, herra forseti, spyr ég hæstv. menntmrh.: Er málið ekki í raun komið lengra en látið var í veðri vaka hér áðan?