Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:00:57 (4329)

2000-02-15 14:00:57# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og skjót viðbrögð þannig að unnt var að ræða þetta mál í dag. Ég taldi ákaflega mikilvægt að umræða fengist um það sem allra fyrst áður en anað er lengra út í ófæruna af hálfu þeirra sem í hlut eiga.

Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt sem hæstv. menntmrh. staðfesti í sambandi við 18. gr. og forsögu þess máls og það er alveg afdráttarlaust að vilji löggjafans stendur ekki til þess að tekin séu skólagjöld við Háskóla Íslands. Hins vegar hefði ég viljað að í beinu framhaldi hefði menntmrh. lýst sig andvígan þessum áformum. Það gerði hann ekki því miður og það harma ég.

Til að taka af vafa og fyrirbyggja misskilning skal það tekið fram að það starf sem unnið er á vegum Endurmenntunarstofnunar hefur verið til fyrirmyndar á ýmsum sviðum og hér er síður en svo verið að hreyfa andstöðu við það. Sömuleiðis væri það fagnaðarefni að upp væri tekið mastersgráðunám og þó fyrr hefði verið og þó í fleiri deildum háskólans hefði verið, enda væri um að ræða venjulegt háskólanám án skólagjalda.

Herra forseti. Ég bind vonir við að þetta frumhlaup, sem ég hlýt að kalla svo í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, þetta frumhlaup viðskipta- og hagfræðideildar verði brotið á bak aftur og þetta mál verði stöðvað þannig að ekki komi til þessarar gjaldtöku heldur verði deildinni tryggðir fjármunir til að byggja upp þetta nám innan vébanda hennar. Það væri óheillaspor að mínu mati að fara út á þessa braut og með því væri gefið slæmt fordæmi. Ef meistaragráðunám af þessu tagi, eitt hið fyrsta við Háskóla Íslands, yrði byggt upp á þessum grundvelli mundi það væntanlega leiða til þess að aðrir í kjölfarið reyndu að fara sömu leið í fjársvelti sínu og þá sjáum við út í hvaða ófæru væri verið að fara. Ég skora því á yfirvöld Háskóla Íslands að láta af þessum áformum eða stöðva þau. Ég skora á hæstv. menntmrh. að staðfesta ekki, sbr. 9. gr. laga um háskólanám, meistaragráðu sem ætti að taka með þessum hætti og ég skora á yfirvöld menntamála að móta stefnu um það hvernig framhaldsnám almennt verði tekið upp í háskólum landsins.