Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:03:19 (4330)

2000-02-15 14:03:19# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ef menn lesa Morgunblaðið í morgun þá sjá þeir mikla auglýsingu frá Háskóla Íslands þar sem verið er að auglýsa meistaranám og doktorsnám á vegum skólans. Það er vissulega verið að stórauka það og er stefna að auka það við Háskóla Íslands eins og aðra háskóla eftir því sem þeir vilja sjálfir og ákveða.

Það nám hér sem um er að ræða er alveg sérstaks eðlis og ef menn kynna sér framboð á svokölluðu MBA-námi víðs vegar í heiminum þá er Háskóli Íslands að fara þarna inn á alveg nýjan markað ef þannig má að orði komast og laga þetta nám að íslenskum kröfum og bjóða það á sambærilegum forsendum og menn gera um heim allan. Háskóli Íslands er einnig í þeirri alþjóðlegu samkeppni. Hann er að leita úrræða og ég tel að viðskipta- og hagfræðideildin sé með þessum hugmyndum sínum að höfða til nýs markhóps sem hún vill kalla inn í nám hjá sér og leggur málið upp með sambærilegum hætti og háskólar gera um allan heim hvort sem þeir eru einkareknir eða ríkisreknir.

Vandinn hér er sá að svara þeirri spurningu sem hv. þm. hreyfði, þ.e. á hvaða lagaforsendum er þetta gert og hvort hægt sé að gera þetta eins og hér er um rætt. Háskólinn hefur ekki enn þá svarað þeirri spurningu og það er verið að vinna að þeim reglum sem þarf til þess að unnt sé að komast að endanlegri niðurstöðu um það.

Ég lít ekki á þetta sem neitt örþrifaráð út af fjársvelti, eins og málið hefur verið lagt hér upp. Það er ekki það sem á bak við þetta býr. Það eru önnur sjónarmið, markaðssjónarmið sem markaðsfræðingar og viðskiptafræðingar í þessari deild hafa séð og telja að séu viðskiptatækifæri fyrir sig og sína deild. Að blanda því saman þótt framkvæmd á reiknilíkaninu kunni á fyrstu mánuðum þess að valda því að menn þurfi að haga sér með öðrum hætti í einstökum deildum eða skorum háskólans, að blanda því tvennu saman er algjörlega rangt því að það á ekkert skylt við reiknilíknið og það eru allir sammála um að fjárveitingar til Háskóla Íslands hafa stóraukist á árinu 2000. Þarna er verið að skilgreina nýtt viðskiptatækifæri af þessari deild háskólans og hún er að reyna að fóta sig á nýjum markaði í þessu tilviki. Það verða menn að hafa í huga.