Höfundalög

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:12:07 (4332)

2000-02-15 14:12:07# 125. lþ. 63.7 fundur 325. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv. 60/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þó að hér sé um stórt mál að ræða ætla ég ekki að halda langa ræðu. Um þetta frv. sem og það mál sem hér er á dagskrá á eftir, þ.e. mál hæstv. menntmrh. sem og það mál sem menntmn. fjallar um núna sem einnig er mál hæstv. menntmrh., útvarpslög, má segja að séu allt mál þar sem verið er að aðlaga löggjöf okkar að þeim veruleika tæknibreytinga sem við blasir og við erum í rauninni kannski að reyna að ná í skottið á í sumum tilfellum.

Í þessu tilfelli erum við ekki bara að eltast við tæknibreytingar heldur líka að aðlaga íslenska löggjöf tilskipunum Evrópusambandsins. Og eins og hér hefur komið fram þá erum við hér að aðlaga íslenska höfundalöggjöf að tilskipun Evrópuþingsins um lögverndun gagnagrunna. Við erum einnig að samræma íslensk höfundalög að ákvæði 4. gr. tilskipunar ráðsins 92/100/EBE um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarétti á sviði hugverkaréttar. Að síðustu fjallar þetta frv. einnig um breytingar á ákvæðum varðandi vernd tölvuforrita með hliðsjón af tilskipun ráðsins 91/250/EBE, um lögvernd fyrir tölvuforrit.

Höfundalögunum var reyndar breytt hér árið 1996 og þá einmitt vegna lögverndar fyrir tölvuforrit. Það segir mönnum e.t.v. hersu ör tæknin er eða hversu hraðar þessar breytingar eru að við skulum aftur núna þurfa að takast á við það verkefni. Ég hef á tilfinningunni að hv. menntmn. verði afar vel upplýst tæknilega þegar þessi vetur er á enda eftir að vera búinn að fara í gegnum þessi mál.

En eins og ég sagði þá er ekki ástæða til að halda hér langa ræðu. Pólitíkin í þessu er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og svo hin að aðlaga okkar löggjöf tilskipunum Evrópusambandsins. Ég kem til með að fjalla um þetta mál á vettvangi nefndarinnar, herra forseti, og hlakka orðið til þess vegna þess að það er í rauninni að opnast fyrir þeim sem þurfa að kynna sér þetta nýr og heillandi heimur þar sem tæknin er og allt það sem hún býður upp á og allar þær breytingar sem menn sjá fram undan.