Grunnskólar

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:28:02 (4334)

2000-02-15 14:28:02# 125. lþ. 63.9 fundur 226. mál: #A grunnskólar# (fulltrúar nemenda) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum grunnskóla. Þetta er 226. mál þingsins á þskj. 271.

Í tilefni af tíu ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kynnti Samfylkingin ýmis mál sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja á Alþingi og varða aðstæður barna í samfélaginu. Ég ætla að fara yfir nokkur þessara mála, herra forseti, til þess að setja það frv. sem ég mæli fyrir í sitt eðlilega samhengi.

Þau mál sem hafa verið kynnt og liggja hér fyrir eru í fyrsta lagi frv. til laga um breytingar á hegningarlögum þar sem það verður refsivert að framleiða og dreifa barnaklámi en í dag er ekki lögð sérstök refsing við því.

Í öðru lagi er frv. til að bæta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína. Það fjallar annars vegar um að barni verði skipaður talsmaður ef ágreiningur verður um umgengni barns við annað foreldri og hins vegar skilnaðarlöggjöf sem er fyrirbyggjandi úrræði sem reynst hefur mjög vel annars staðar á Norðurlöndunum til að tryggja rétt barna til umgengni við báða foreldra.

Í þriðja lagi er um að ræða frv. til laga um breytingar á barnalögum til að auka rétt feðra barna. Það miðar að því að auka rétt feðra gagnvart börnum sínum sem fæðst hafa utan hjúskapar. Við slíkar aðstæður eru nú engin úrræði handa karlmönnum ef kona nefnir annan föður að barni sem hann telur sig eiga. Af þeim sökum eru dæmi um að börn hafi ekki fengið að njóta samvista við raunverulegan föður sinn og því er lagt til að barnalögum verði breytt þannig að karlmaður í þessari stöðu geti höfðað mál til að gengið sé úr skugga um faðerni barns.

[14:30]

Í fjórða lagi er um að ræða till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna þar sem ríkisstjórninni er falið að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmiðið er að tryggja hag þeirra og búa þeim sem jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska.

Í fimmta lagi er um að ræða till. til þál. um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem gert er ráð fyrir að dómsmrh. skipi nefnd til að gera úttekt á lögum er varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmálans, sem hefur eins og margoft hefur komið fram hér, herra forseti, verið staðfestur af hálfu Íslands.

Í sjötta lagi er um að ræða till. til þál. um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota þar sem gert er ráð fyrir að dómsmrh. skipi nefnd sérfræðinga sem hafi það verkefni að kanna og gera tillögur um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota, einkum barna og unglinga. Jafnframt á nefndin að kanna hvaða fyrirbyggjandi aðgerðum sé hægt að beita.

Og í sjöunda lagi, herra forseti, er hér mál er varðar aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna þar sem till. til þál. gerir ráð fyrir að betur verði tryggð réttindi foreldra vegna veikinda barna sinna og verði haft til hliðsjónar það fyrirkomulag sem er á hinum Norðurlöndunum og hvernig þar er bætt fyrir launatap vegna veikinda barna.

Þetta var stutt upptalning, herra forseti, á þeim málum sem Samfylkingin hefur kynnt og lagt hér fyrir og varðar rétt barna en auk þessa eru önnur þingmál og fyrirspurnir sem varða réttindi barna sem ég tel ekki upp nú en vind mér í það mál sem ég ætlaði sérstaklega að mæla fyrir sem er frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. Ásamt mér eru flm. þessa frv. hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Jóhann Ársælsson.

Samningurinn um réttindi barna, oftast nefndur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990 og með samþykkt þingsályktunar á Alþingi 13. maí 1992 var ríkisstjórninni heimilað að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Það var gert hinn 28. október sama ár. Með fullgildingu barnasáttmálans skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum öll þau réttindi sem þeim eru tryggð í sáttmálanum.

Í 12. gr. samningsins segir: ,,Aðildarríki skulu tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.``

Flest börn dvelja stóran hluta dagsins í skóla og viðurkennt er að skólinn hefur mikil áhrif á uppeldi og félagsmótun barna og ungmenna. Fyrir mörg börn er skólinn bæði leik- og vinnustaður. Því er mikilvægt að börn og unglingar --- sem reyndar á bara að kalla börn núna --- eigi þess kost að setja með formlegum og skipulegum hætti fram skoðanir sínar og álit á skipulagi vinnunnar, aðstöðu sem þeim er boðin og vinnubrögðum á þessum mikilvæga vinnu- og leikstað sínum.

Í núgildandi lögum um grunnskóla er hlutur foreldra við stjórn grunnskólans og möguleikar til að hafa áhrif á störf hans auknir frá því sem var og er það vel. En í þeim sömu lögum er skertur réttur nemenda til að geta formlega komið á framfæri skoðunum sínum um skipulag skólastarfsins eða annað sem hefur bein áhrif á aðstæður nemenda í skólanum.

Í grunnskólalögum, nr. 49/1991, þ.e. þeim lögum sem giltu áður en núgildandi lög tóku gildi, var gert ráð fyrir því að fulltrúi nemenda eða nemendaráðs ætti ,,rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs, svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti, þegar rætt er um skipulag skólastarfsins``. Við setningu núgildandi laga var þetta ákvæði fellt út með eftirfarandi rökstuðningi í greinargerð, með leyfi forseta: ,,Rétt þykir að hafa það í valdi hvers skóla hvernig formlegri aðild nemenda að stjórn skólans er fyrir komið.`` Í ljósi ákvæða barnasáttmálans um að börnum skuli tryggður réttur til að láta í ljósi skoðanir á öllum málum sem þau varða þykir rétt að ákvæði séu í grunnskólalögum þess efnis að börnin eigi þennan rétt án tillits til aðstæðna í viðkomandi skóla, að það sé ekki undir því komið hvaða skoðun viðkomandi skólayfirvöld hafi á því hvort nemendur geti með formlegum hætti komið skoðun sinni framfæri, hvort þau fái að njóta þess réttar, heldur eigi þau að eiga skýlausan rétt til þess samkvæmt lögum.

Í grunnskólalögum, nr. 49/1991, var einnig ákvæði um skólaráð sem skipað skyldi fulltrúum starfsfólks skóla, foreldra og nemenda. Skólum var þó heimilt að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði og fámenni nefnt sem gild ástæða. Ákvæði þess efnis í núgildandi lögum að skólastjóri skuli a.m.k. tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og til að fjalla um starfsemi þessara ráða er e.t.v. sambærilegt við ákvæði eldri laga eða ákvæðið um skólaráð.

Í eldri lögum, herra forseti, var ekki ákvæði þess efnis að fulltrúar nemenda ættu rétt til setu á skólanefndarfundum þegar fjallað væri um málefni sem snerta hagsmuni nemenda sérstaklega.

Með barnasáttmálanum er börnum veittur réttur til að láta í ljós skoðanir sínar um öll mál sem snerta þau sjálf. Til að tryggja betur en nú er formlegan farveg fyrir nemendur grunnskólans til að láta í ljós skoðun sína á málefnum innan skólans, málefnum sem snerta þá sjálfa, er gerð tillaga um þessar breytingar á lögum um grunnskólann.

Í 1. gr. er lagt til, herra forseti, að nemendum sé bætt við í upptalningu 4. mgr. 13. gr. laganna á þeim sem rétt eiga til setu á fundum skólanefndar þegar fjallað er um skipulag skólastarfsins eða önnur bein hagsmunamál nemenda.

Í ljósi þeirra verkefna sem skólanefnd eru falin þykir eðlilegt að nemendur eigi rétt til setu á fundum skólanefnda með málfrelsi og tillögurétti þegar skólanefnd fjallar um málefni sem snerta nemendur í viðkomandi skóla sérstaklega en í sumum skólahverfum eru fleiri en einn skóli. Skólanefnd staðfestir m.a. áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með námi og kennslu, skólanefnd getur gert tillögur til skólastjóra um umbætur í skólastarfi og skólanefnd fylgist með og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda. Allt eru þetta verkefni sem eðlilegt er að nemendur fái að láta í ljós skoðun á þegar um þau er fjallað.

Ný málsgrein sem lagt er til að bætist við 13. gr. laganna fjallar um fyrirkomulag kosninga á fulltrúum nemenda til setu á skólanefndarfundum. Rétt þykir að nemendur kjósi fulltrúa beint úr sínum hópi þar sem einungis er heimilt en ekki skylt samkvæmt núgildandi lögum að stofna nemendaráð. Einnig þykir rétt að fulltrúar nemenda séu tveir svo þeir hafi stuðning hvor af öðrum. Með því yrði tekið tillit til veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Um 2. gr. er það að segja að lagt er til að ný 2. mgr. sé felld inn í 17. gr. Með málsgreininni er gert ráð fyrir því að nemendur, eða nemendaráð, eigi tvo fulltrúa á kennarafundum. Þetta er stutt sömu rökum og sett eru fram fyrir tveimur fulltrúum nemenda í skólanefnd, þ.e. að þeir styrki hvor annan vegna veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. menntmn.