Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:40:15 (4335)

2000-02-15 14:40:15# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Flm. eru ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Drífa Hjartardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Möller, Valgerður Sverrisdóttir, Einar Már Sigurðarson og Einar Oddur Kristjánsson.

Í 1. gr. segir:

,,Heimil er keppni og sýning á ólympískum hnefaleikum. Enn fremur er heimilt að kenna ólympíska hnefaleika.``

Í 2. gr. stendur:

,,Heimil er sala og notkun hnefaleiksglófa og annarra tækja sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum.``

Í 3. gr. segir:

,,Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur reglur um ólympíska hnefaleika.``

Í 4. gr. stendur: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Árið 1956 voru hnefaleikar bannaðir hér á landi og var orsökin meiðsli sem urðu við iðkun hnefaleikanna. Ólympískir hnefaleikar eru allt annars eðlis en atvinnumannahnefaleikar og er hægt að taka fram hér nokkur atriði.

Í fyrsta lagi: Í ólympískum hnefaleikum eru notaðar höfuðhlífar og þykkari hanskar sem eru allt að 30--50% efnismeiri en í atvinnumannahnefaleikum, sem þýðir meiri fjöðrun og minni hættu á meiðslum.

Lotur eru þrjár í ólympískum hnefaleikum í þrjár mínútur í senn eða fimm lotur í tvær mínútur í senn. Í atvinnumannahnefaleikum eru lotur allt að tólf í þrjár mínútur í senn.

Í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Svíþjóð og Finnlandi hafa farið fram vandaðar læknisfræðilegar rannsóknir á hnefaleikum sem leiddu í ljós m.a. að ólympískir hnefaleikar valda mun minna líkamstjóni og meiðslum en ýmsar vinsælar íþróttagreinar, svo sem íshokkí, knattspyrna, körfubolti, handbolti og ég tala ekki um amerískan fótbolta. Meiðsl í ólympískum hnefaleikum eru 30--50 sinnum minni en í atvinnuhnefaleikum samkvæmt sömu rannsókn.

Í reglum um ólympíska hnefaleika má keppandi sem vankast, sem gerist í u.þ.b. hundraðasta hvert skipti, í hundruðustu hverri keppni, ekki hefja keppni fyrr en eftir þrjá mánuði. Áhugamannahnefaleikari fær ekki að keppa eftir 33 ára aldur og í ólympískum hnefaleikum er læknisskoðun skyld bæði fyrir og eftir hverja keppni. Það er einnig skylda í ólympískum hnefaleikum að hafa keppnisferilsbók, sem er varla þekkt í öðrum íþróttagreinum.

Í ólympískum hnefaleikum er aðeins hægt að vinna á stigum. Hugtakið ,,tæknilega sleginn út`` eða TKO ,,technical knock out`` er ekki til og ekkert stig fæst fyrir að slá andstæðinginn í gólfið. Litið er á meiðsli sem óhöpp á sama hátt og í öðrum íþróttagreinum.

Hefðbundnir hnefaleikar eða atvinnumannahnefaleikar eru bannaðir í nokkrum löndum, m.a. Svíþjóð og Noregi og náttúrlega hér á landi, en ólympískir hnefaleikar eru hvergi bannaðir í heiminum nema á Íslandi og eru Íslendingar mjög sérstakir að þessu leyti. Dómgæsla og reglur í ólympískum hnefaleikum miða að því að vernda hnefaleikarann eins og framast er kostur. Leikur er stöðvaður ef annar keppandinn hefur mikla yfirburði og hart er tekið á ólöglegum höggum og ef það gerist oft er mönnum vísað úr keppni.

[14:45]

Hnefaleikar eru sjálfsvarnaríþrótt líkt og íslensk glíma, júdó, karate og fleiri íþróttir sem heita ýmiss konar austurlenskum nöfnum. Leyfð er t.d. iðkun og kennsla í Jeet Kune Do sem er tælensk íþrótt sem kallast kickbox á ensku. Þar er barist með hönskum eins og í hnefaleikum, en einnig eru þar leyfð spörk. Í Tae Kwon Do er barist með berum hnefum og fótum og meiðslatíðni er hærri en í ólympískum hnefaleikum, en Tae Kwon Do er ólympísk íþrótt, einnig leyfð hér á landi.

Meðan ekki hafa verið færðar sönnur á að ólympískir hnefaleikar valdi meiri meiðslum en aðrar vinsælar íþróttagreinar, svo sem knattspyrna, handbolti og hestaíþróttir, er þá ekki verið að brjóta jafnræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar með því að banna ólympíska hnefaleika?

Höfuðmeiðsl eru aðaláhyggjuefni í ólympískum hnefaleikum og andstæðingar ólympískra hnefaleika hafa notað þau sem rauðan þráð í sínum málflutningi. En á þá t.d. að banna að leika knattspyrnu í rigningu þar sem boltinn er blautur og þungur og talsvert höfuðhögg verður þegar blautur knötturinn er skallaður? Eða á kannski að banna skalla í fótbolta? (Gripið fram í: Banna rigningu.) Eða að banna að leika í rigningu? Þetta er svona álíka gáfulegt og bann við ólympískum hnefaleikum. Síðan eru það markmenn í handbolta. Sá sem hér stendur hefur nú töluverða reynslu af því að vera í marki í handbolta frá því á árum áður. Það er ekki þægilegt að vera markvörður og fá boltann í höfuðið. (Gripið fram í.) Einn landsþekktur markvörður hefur fullyrt að hann hafi orðið fyrir höfuðmeiðslum vegna þess að bolti fór í höfuðið í honum. Það var skotið í höfuðið á honum. Spurningin er hvar við eigum að draga mörkin. Hvað eigum við lengi að hafa vit fyrir okkur og öllum hinum hvað þeir eiga að stunda og hvað sé hættulegt og ekki hættulegt? Nú er árið 2000. Við erum ekki í fortíðinni. Árið 1956 er liðið. Nú er komið 2000. Það er búið að rannsaka málið og það er búið að sýna fram á að þetta er ekki hættuleg íþrótt. Því spyr ég, hvers vegna á ekki að leyfa þetta? Til þess er þetta frv. lagt fram.

Það er líka til umhugsunar fyrir okkur í nútímasamfélagi að það ætti að vera á valdi hvers og eins að ákveða hvaða íþrótt hann kýs að stunda. Ef miðstýringin á að vera slík og það á að hafa vit fyrir okkur í einu og öllu, eins og ég sagði áðan, þá er illa komið. Ég tel að það sé mikið réttlætismál fyrir okkur að leyfa þetta. Við erum líka þátttakendur í ólympíusamstarfi. Við erum með íslenska ólympíunefnd og annað slíkt. Við erum á Ólympíuleikum og viðurkennum þær greinar sem þar eru. En svo bönnum við eina greinina. En bönnum ekki aðra sjálfsvarnargrein sem er Tae Kwon Do. Við gerum engar athugasemdir við það.

Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.