Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:57:42 (4337)

2000-02-15 14:57:42# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hérna er til umfjöllunar frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika og ég er einn flutningsmanna þess. Þetta mál er ekki að koma í fyrsta sinn í þingsalinn því að á 116. löggjafarþingi í marsmánuði 1993 var mælt fyrir þáltill. um ólympíska hnefaleika af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og Inga Birni Albertssyni þar sem lagt var til að skipuð yrði þriggja manna nefnd til að kanna hvort rétt væri að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi. Tillagan fór til skoðunar í menntmn. og var send til umsagnar ýmissa aðila en var ekki afgreidd. Þáltill. sama efnis var endurflutt tvisvar sinnum seinna og var tillagan þá afgreidd frá menntmn. Í umsögn menntmn. kemur fram að skiptar skoðanir voru meðal umsagnaraðila um réttmæti þess að lögleiða hnefaleika, en þeir hafa verið bannaðir með lögum hér á landi frá 1956. Menntmn. tók ekki afstöðu til tillögunnar en beindi því til menntmrn. að afla frekari upplýsinga um keppnisreglur, slysatíðni miðað við aðrar ólympískar greinar og með hvaða skilyrðum ólympískir hnefaleikar eru leyfðir erlendis eins og þáltill. gerði ráð fyrir. Þáltill. var síðan vísað til ríkisstjórnarinnar.

Í byrjun árs 1998 beindi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson munnlegri fyrirspurn til hæstv. menntmrh. þar sem hann innti ráðherra eftir hvað athugun ráðuneytis hans liði í þessu máli, jafnframt sem hæstv. menntmrh. var spurður hvort bann við sýningum á hnefaleikum næði til sýninga í sjónvarpi, í tölvu eða á internetinu, og ef svo væri, hvernig ráðherra hygðist framfylgja banninu. Í svari ráðherrann kom fram að í ráðuneyti hans lægju fyrir upplýsingar um lög og reglur alþjóðasambands áhugamanna í hnefaleikum og einnig lægju fyrir keppnisreglur ólympískra hnefaleika. Hins vegar hefði verið erfiðleikum bundið að afla upplýsinga um slysatíðni í greininni. Í svari ráðherrans kom jafnframt fram sú túlkun hans að bann við sýningum á hnefaleikum næði eingöngu til sýninga sem færu fram hér á landi en næði ekki til þeirra miðla sem þingmaðurinn nefndi í fyrirspurn sinni.

[15:00]

Frumvarp um að lögleiða ólympískra hnefaleika hér á landi, sem mælt er fyrir í dag, gengur skrefinu lengra. Nú er lagt fyrir hv. Alþingi að taka afstöðu til þess hvort afnema eigi bann við keppni, sýningum og kennslu í hnefaleikum sem hefur verið í gildi frá árinu 1956 samkvæmt lögum nr. 92/1956.

Virðulegi forseti. Ólympískir hnefaleikar, sem eru einnig kallaðir áhugamannahnefaleikar, eru keppnisgrein á Ólympíuleikum. Keppnisgreinin er allfrábrugðin atvinnumannahnefaleikum sem sýndir eru í sjónvarpi við miklar vinsældir hér á landi og eru m.a. leyfðir í Bandaríkjunum og Bretlandi og fleiri löndum. Frv. það sem er til umfjöllunar tekur ekki til atvinnumannahnefaleika en sú grein er afar umdeild, m.a. vegna þeirra reglna sem gilda í íþróttinni sem geta leitt til alvarlegra meiðsla iðkenda greinarinnar. Þetta hefur m.a. gefið bresku og bandarísku læknasamtökunum tilefni til að berjast fyrir banni á hnefaleikum.

En hvað eru ólympískir hnefaleikar og hvernig eru þeir frábrugðnir atvinnumannahnefaleikum? Á heimasíðum bandarísku og kanadísku ólympíuhnefaleikasamtakanna kemur fram að þessi tegund hnefaleika leitast við að gæta fyllsta öryggis hnefaleikarans og taka búnaður leikmanna og reglur leiksins mið af því. Lögð er rík áhersla á að gera skýran greinarmun á þessum tveimur tegundum hnefaleika.

Á heimasíðu kanadísku samtakanna er að finna upplýsingar um greinina og er gerður samanburður á henni og atvinnuhnefaleikum. Þar segir m.a. að ólympískir hnefaleikar hafi þróast mikið á undanförnum árum og reglur íþróttarinnar, sem miða að því að bæta öryggi til verndar heilsu keppandans, hafi verið í stöðugri endurskoðun. Sérkenni ólympískra hnefaleika, sem skilja þá frá atvinnumannahnefaleikum, er að keppt er í þremur til fjórum lotum sem eru tvær mínútur hver í stað tólf og jafnvel upp í fimmtán þriggja mínútna lotna í atvinnuhnefaleikum. Hnefaleikurum er skylt að nota höfuðhlífar, sem er óleyfilegt í atvinnuhnefaleikum. Þeir nota þykkari boxhanska til að dempa högg og eru í bolum að ofan. Leikni hnefaleikara í að fara inn fyrir varnir andstæðings síns er lögð til grundvallar við stigagjöf en ekki að slá andstæðinginn niður eða veita honum rothögg eins og í atvinnumannahnefaleikum. Þá er skilgreind 21 tegund hegðunar í keppni sem er óleyfileg og leiðir hegðunarbrot til refsistiga. Þegar leikmaður hefur fengið þrjú refsistig tapar hann leiknum, burt séð frá annarri frammistöðu. Hlutverk dómara er að gæta að öryggi leikmanna og skerast í leikinn en ekki telja stig eins og í atvinnumannahnefaleikum. Stig eru talin rafrænt til þess að tryggja hlutlægt mat en ég kann hins vegar ekki frekar skil á því hvernig það mat fer fram.

Ólympískir hnefaleikar hafa verið keppnisgrein á Ólympíuleikum frá 1904 á Ólympíuleikum nútímans. Þess má geta að íslenska íþróttahreyfingin styður að ólympískir hnefaleikar verði leyfðir hér á landi. Sjálf hef ég engan áhuga á atvinnumannahnefaleikum. Ég horfi aldrei á þá í sjónvarpi og mér hugnast ekki þær barsmíðar sem eiga sér stað í leikhringnum með tilheyrandi blóðsúthellingum og meiðslum. Hins vegar sé ég engin rök fyrir því að banna ólympíska hnefaleika. Ólympískir hnefaleikar, sem frv. snýst um, felur í sér ákveðna tegund líkamsræktar, fylgir ákveðnum reglum, þar með talið öryggisreglum, sem hafa þann tilgang að verja leikmann fyrir meiðslum og íþróttin veitir líkamlegri hreyfiþörf útrás.

Ég sé ekki mikinn mun á ólympískum hnefaleikum og ýmsum vinsælum sjálfsvarnaríþróttum sem stundaðar eru hér á landi. Nú nýverið hafa hreyfingar í líkamsrækt sem upprunnar eru úr hnefaleikum notið vaxandi vinsælda hér á landi. Ég á þar við svokallað Tae bo og ég get vitnað um það sjálf að sú hreyfing er afar skemmtileg og tekur vel í skrokkinn.

Eins og ég benti á eru atvinnumannahnefaleikar og ólympískir hnefaleikar af ólíkum toga og hafa hinir síðarnefndu liðið áróðurslega fyrir þá fyrrnefndu. Í umræðu um hvort leyfa eigi ástundun hnefaleika togast yfirleitt á tveir pólar: þau sjónarmið sem vilja virða frelsi einstaklinga til athafna og hins vegar þau sjónarmið að hafa vit fyrir fólki, öðru nafni forræðishyggja. Til að skerða frelsi einstaklinga til tiltekinna athafna þurfa að liggja sterk rök að baki. Þeir sem tala fyrir banni á hnefaleikum hafa notað rök um heilsutjón til grundvallar. Einnig hafa siðferðileg sjónarmið verið áberandi sem fordæma íþróttir sem hafa tilvísun í neikvæðar athafnir eins og ofbeldi.

Ég hef að undanförnu farið í gegnum nokkrar greinar í erlendum fagtímaritum um hnefaleika þar sem ég leitaðist við að gera mér grein fyrir umræðunni erlendis og afla mér betri upplýsinga um slysatíðni í greininni. Við öflun þessara gagna hef ég notið ötullar aðstoðar upplýsingadeildar þingsins. Ég þakka sérstaklega fyrir það en ég hef áður sagt og segi enn aftur að Alþingi hefur yfir að ráða yfirburða starfsfólki og er starfsfólk upplýsingadeildar í fremstu röð hér á landi. Mig langaði til að segja það í ræðustól. Þessi deild sinnir beiðnum af stakri fagmennsku og ljúfmennsku og á starfsfólkið þökk skilið í þessu máli sem öllum öðrum málum sem leitað hefur verið með til þeirra.

Þeim faggreinum um hnefaleika sem ég aflaði mér úr læknatímaritum má raða í tvo aðalbunka, annars vegar rannsóknargreinar sem rannsaka áhrif hnefaleika á heilsufar. Sá bunki skiptist í tvo flokka, annars vegar áhrif ástundunar atvinnumannahnefaleika og hins vegar ólympískra hnefaleika á heilsufar. Hinn bunkinn fjallar um áróður með eða móti banni á hnefaleikum. Ég ætla fyrst aðeins að fjalla um heilsufarsleg áhrif hnefaleika á iðkendur íþróttarinnar.

Því hefur verið haldið fram að hnefaleikar séu skaðlegir heilsu manna. Margar greinar um þetta efni benda á að ekki liggi fyrir nægilega ítarlegar rannsóknir sem styðja þessa skoðun. Ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið eru frá fimmta og sjötta áratugnum þegar aðrar reglur voru í gildi í hnefaleikum. Þær benda til þess að hnefaleikurum sé hætt við að fá varanlegan heilaskaða af völdum högga sem beint er að höfði. Þeir hafa einkenni sem líkjast Parkinsonsjúkdómi svo og einnig einkenni Alzheimersjúkdóms sem lýsa sér m.a. í minnisleysi.

Þessi einkenni hafa komið fram hjá þeim sem stunda eða stundað hafa atvinnuhnefaleika þar sem hnefaleikarar eru ekki með hlífðarhjálma. Í þeirri tegund hnefaleika eru högg á höfuð andstæðingsins látin óátalin og jafnvel talin hnefaleikara til tekna. Ég tel að rannsóknir á áhrifum atvinnuhnefaleika á heilsufar iðkenda greinarinnar staðfesti að þeir geti beðið varanlegan skaða á heilsu sinni enda eru atvinnuhnefaleikar bannaðir í mörgum löndum heims eins og á Norðurlöndum. Fjöldi rannsókna á iðkendum ólympískra hnefaleika með tilliti til áhrifa íþróttarinnar á heilsufar liggja fyrir og fæstar þeirra benda til heilaskaða og alls ekki í þeim mæli sem ég lýsti hér að framan varðandi atvinnuhnefaleikara.

Ég ætla að nefna sérstaklega tvær rannsóknir sem birtust í Clinical Journal of Sport Medicine á árinu 1996. Þar er greint frá rannsóknum sem gerðar voru á keppendum í ólympískum hnefaleikum í Dublin á Írlandi á 15--18 mánaða tímabili á árunum 1992--1993. Fyrri rannsóknin er taugasálfræðileg athugun á 20 keppendum sem tóku virkan þátt í ólympískum hnefaleikum. Hópur 20 manna, sem var sambærilegur með tilliti til aldurs og félagslegrar stöðu en stundaði ekki þessa íþrótt, var notaður sem samanburðarhópur. Notuð voru átta viðurkennd taugasálfræðileg próf til að meta hvort ólympískir hnefaleikar hefðu taugasálfræðileg neikvæð áhrif á keppendur í greininni.

Niðurstaða athugana var að ekki var munur á frammistöðu þessara tveggja hópa í taugasálfræðilegum prófunum nema í einum þætti sem varðar beitingu handa. Ástæðan var sú að talið var að áverkar vegna handarhögga yllu því. Jafnframt benti samanburður á niðurstöðu rannsóknar hnefaleikaranna í byrjun og lok rannsóknartímabils ekki til að þeir hefðu hlotið skaða af iðkun íþróttarinnar á tímabilinu. Niðurstaða rannsakenda var sú að ólympískir hnefaleikar leiddu ekki til heilaskaða.

Sömu aðilar skoðuðu einnig tíðni og alvarleika áverka af völdum ólympískra hnefaleika á sama tímabili. Þar skoðuðu þeir alla meðlimi sex stærstu hnefaleikaklúbba í Dublin sem voru virkir í keppni í greininni. Niðurstaða rannsakenda var að hætta á áverkum af völdum ólympískra hnefaleika væri tiltölulega lítil í samanburði við aðrar íþróttir. Áverkar á höfði, sem nær eingöngu ættu sér stað í keppni, væru aðallega vægur heilahristingur.

Í grein úr þýska fagtímaritinu Sportsverletzung, Sportschaden sem birtist í mars 1999 er greint frá úttekt á slysum vegna sjálfsvarnaríþrótta og byggðist hún á athugunum á sjúkraskýrslum og skýrslum tiltekins tryggingafélags yfir 15 ára tímabil. 137 slys voru skráð sem áttu sér stað í þessum íþróttum. Af þeim áttu 47 tilvik sér stað í júdó, 44 í karate, 22 í wrestling, 9 í Tae Kwon Do, 7 í hnefaleikum og færri tilvik í öðrum tilteknum íþróttagreinum sem falla undir sjálfsvarnaríþróttir. Það er athyglisvert að einungis sjö atvik á 15 ára tímabili áttu sér stað í hnefaleikum meðan 47 og 44 tilvik áttu sér stað í júdó og karate sem eru viðurkenndar sjálfsvarnaríþróttir hér á landi og hafa ekki sérstaklega verið tengdar slysahættu.

Í frétt sem birtist í breska læknatímaritinu The British Medical Journal í ágúst 1998 kemur fram að samkvæmt slysaskráningu í Hollandi á tíu ára tímabili frá 1987--1996 voru skráð 18 þúsund slys þar sem heilaáverkar komu við sögu. Í 4.300 tilvika urðu slysin í fótbolta, í 3.400 tilvikum í reiðmennsku og 70 tilvikum í hnefaleikum. Í annarri grein, sem birtist í sama tímariti í febrúar 1998, var bent á að af dauðsföllum sem áttu sér stað við íþróttaiðkun í Bretlandi á árunum 1986--1992 voru þrjú af völdum hnefaleika en þar eru atvinnumannahnefaleikar stundaðir, 77 dauðsföll urðu við mótoríþróttir, 69 við flugíþróttir, 54 vegna fjallaklifurs og 28 vegna hestaíþrótta. Því má spyrja hvort hnefaleikar séu jafnhættuleg íþrótt og af er látið í samanburði við aðrar íþróttir sem hafa þó jákvæða ímynd og eru ekki tengdar við áhættu á sama máta og hnefaleikar.

Ástralska heilbrigðisrannsóknarráðið gaf á árinu 1994 út ráðleggingar sínar varðandi hnefaleika. Þar benti ráðið á vöntun á rannsóknum til að staðfesta langvarandi áhrif ástundunar hnefaleika á heilsu manna og hvatti til frekari rannsókna. Með hliðsjón af þeim rannsóknum sem þó lágu fyrir lögðu þeir til að atvinnumannahnefaleikar skyldu bannaðir en ólympískir hnefaleikar skyldu leyfðir að uppfylltum skilyrðum um reglur við iðkun íþróttarinnar, fræðslu um íþróttina og að langtímarannsóknir skyldu gerðar til að kanna hugsanlega hættu á heilsuskaða af völdum iðkunar íþróttarinnar.

Ýmis læknasamtök hafa barist fyrir því að hnefaleikar verði bannaðir. Bresku og bandarísku læknasamtökin hafa opinberlega barist fyrir banni á hnefaleikum en atvinnuhnefaleikar eru eins og ég hef sagt áður afar vinsæl grein í þessum löndum. Samtökin hafa sett báðar tegundir hnefaleika undir sama hatt. Þau hafa verið gagnrýnd af mörgum fyrir þetta framtak sitt og hefur verið borið á brýn að styðja kröfu sína ónógum rökum, einkum varðandi ólympíska hnefaleika. Í ýmsum faggreinum sem ég hef farið í gegnum þar sem mælt er með banni á hnefaleikum er viðurkennt að ekki sé hægt að setja atvinnumannahnefaleika og ólympíska hnefaleika undir sama hatt.

Bandarísku læknasamtökin hafa nú aðeins sveigt af leið í baráttu sinni fyrir banni á hnefaleikum og beina nú kröftum sínum í æ meiri mæli í átt að því að benda á leiðir til að minnka áverka af völdum íþróttarinnar. Þessi samtök lækna, sem gera kröfur um bann við hnefaleikum og að ástundun hnefaleika sé refsiverð fyrir lögum, hafa einnig verið gagnrýnd fyrir það að ganga ekki fram með sama hætti gagnvart tóbaks- og áfengisneyslu sem þó hefur sýnt að geti valdið margfalt meiri skaða en hnefaleikar.

Niðurstaða mín eftir að hafa farið ofan í þetta mál er sem sagt sú að það eigi að lögleiða ólympíska hnefaleika hér á landi en atvinnuhnefaleikar verði hins vegar áfram bannaðir. Erlendar rannsóknir gefa vísbendingar um að hætta á slysum af völdum ólympískra hnefaleika sé minni en í mörgum öðrum viðurkenndum íþróttagreinum. Þetta er íþrótt sem fylgir ákveðnum reglum sem hafa það að markmiði að draga úr hættu á meiðslum. Hins vegar legg ég áherslu á að fræðsla um hættu á meiðslum á þessari íþrótt sem og öðrum íþróttum sem stundaðar eru hér á landi verði aukin í forvarnaskyni en ýmislegt bendir til að íþróttameiðsl hér á landi séu tíð.

Þó að ég hafi ekki sérstaklega rætt um börn og ungmenni í ræðu minni, sem hefði sannarlega verið tilefni til, þá vil ég að lokum nefna að sú nefnd sem fær frv. til athugunar skoði hvort þörf er á að setja aldursmörk á þá sem stunda þessa íþrótt.