Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:20:42 (4339)

2000-02-15 15:20:42# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Þeir hv. þm. sem til máls hafa tekið á undan mér um frv. hafa allir verið hlynntir því. Þeir hafa verið flm. og hafa komið fram með rök fyrir því að rétt sé að lögleiða þessa íþróttagrein á Íslandi. (Gripið fram í: Þekktir boxarar.) Já, þekktir boxarar, er sagt hér í salnum, ég veit nú ekki hvort það er rétt, ég held því miður að sumir þingmennirnir hafi nú verið vélaðir til stuðnings við frv. En við nánari kynni mundu þeir kannski átta sig á því að þetta er alvarlegra mál en þegar talað er um fimleika eða hestaíþróttir.

Ég tel að efnisleg rök séu fyrir því að gera upp á milli íþróttagreina. Ég tel að þau rök sem fram hafa komið í máli hv. flm. frv., það hefur komið skýrt fram í umræðu þeirra um forræðishyggju og frelsi einstaklingsins að hægt væri að beita þeim sömu rökum og lögleiða svo til hvað sem er. Ekkert mál að lögleiða atvinnuhnefaleika með þeim rökum, þannig að þau í sjálfu sér halda ekki. Það er auðvitað rétt að munur er á atvinnuhnefaleikum og áhugamannahnefaleikum. Ég held að almennt um heimsbyggðina sé talað um áhugamannahnefaleika en ekki ólympíska hnefaleika en það orðalag sé notað hér til að draga fram þá hlið málsins sem er kannski ekki alveg réttlætanlegt. Almennt heiti á þessari íþrótt er áhugamannahnefaleikar.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller að nokkur munur er á því hvernig þetta er framkvæmt og hún fór yfir þau atriði að nokkru leyti. Meðal annars má nefna að í áhugamannahnefaleikum eru þátttakendur með hjálma. Í upplýsingum á heimasíðunni sem hv. þm. vitnaði til kemur fram að hjálmarnir hlífa höfðinu fyrst og fremst við ytri áverkum, þ.e. skurðum og áverkum á ytra borð höfuðsins og á eyrun, en við nánari skoðun í greinum sem birtar hafa verið af hálfu læknasamtaka víða um heiminn og þeirra lækna sem rannsakað hafa afleiðingar hnefaleika, bæði atvinnu- og áhugamannahnefaleika, kemur í ljós að áverki á heilann verður þrátt fyrir hjálminn, og það eru ítarlegar skýringar á því. Mér finnst líka ómaklegt að telja fjölda slysa í íþróttum án þess að taka fyrir hvert hlutfallið er miðað við fjölda iðkenda og hversu langan tíma það tekur að leika einn leik eða boxa sig í gegnum nokkrar lotur. Slíkar tölur eru einskis virði og mjög óvísindalega fram settar nema þær séu settar í slíkt samhengi. Þær upplýsingar sem ég hef aflað mér eru eins og ég sagði áðan frá læknasamtökum víða um heiminn og frá ýmsum læknum sem hafa rannsakað afleiðingar af höfuðáverkum. Að vísu er sagt að langtímarannsóknir þurfi til að geta fullyrt um varanlega áverka og varanlegar afleiðingar. En það er samt svo að flestir eru sammála um að þeir höfuðáverkar sem hnefaleikarar verða fyrir séu yfirleitt ekki uppgötvaðir eða uppgötvanlegir strax að loknum leik. Þeir gera oft ekki vart við sig strax og það gerir auðvitað erfiðara að rannsaka málið, það gefur augaleið. Læknisskoðun strax að loknum hnefaleikum hefur því frekar lítið að segja hvað varðar langtímaáhrif á heilann.

Ég horfði á Múhameð Alí sem hét Cassius Clay þegar ég bjó í Bretlandi, og hafði mjög gaman af að horfa á hann í sjónvarpi, ég játa það alveg hér og dáðist að honum sem íþróttamanni. En ég horfi líka á það sem síðar varð með Múhameð Alí og það flak og Parkinsonsjúkling sem hann er í dag. Því er haldið fram að það sé aukin tíðni bæði á Parkinsonsjúkdómi og á Alzheimersjúkdómi og á fleiri slíkum sjúkdómum hjá þeim sem hafa stundað hnefaleika, fyrst og fremst þeim sem hafa orðið fyrir miklum áverkum á höfuðið. (KGH: Er það sannað?) Og það er alvarlegt mál. Það verður einhvern tímann sannað, það kemur einhvern tímann í ljós hver sannleikurinn er. En ég held að við eigum að láta unga íþróttamenn á Íslandi njóta vafans og leyfa lögunum að standa eins og þau eru þangað til málið liggur skýrara fyrir. Sú ábending hefur m.a. komið fram hjá rannsakendum og hjá læknasamtökum að komast mætti að samkomulagi um þetta mál eins og menn gerðu þegar bannað var að slá fyrir neðan beltisstað, bannað var að slá í kynfæri og það eru allir sammála um það. Á sama hátt hefur verið sagt að ef menn gætu komið sér saman um það að ekki mætti slá í höfuð eða andlit, að ekki mætti slá fyrir ofan brjóstgrindina, þá væri um allt annað mál að ræða. En þá hafa boxarar og ekki síst þeir sem hafa stundað áhugamannahnefaleika sagt að þá væri það ekki box. Það er til lausn á málinu en hún hefur ekki náð fram að ganga enn þá.

Ameríska læknafélagið og breska læknafélagið setja hnefaleika af báðum sortum undir sama hatt vegna þeirra höfuðáverka sem af hnefaleikunum geta leitt. Læknafélögin eru ekki hagsmunaaðilar í þessu máli. Þar eru fagmenn sem hafa rannsakað afleiðingar af þeim áverkum sem þessir íþróttamenn verða fyrir. Og við verðum að athuga að hnefaleikar eru ekki sjálfsvarnaríþrótt, ég hef aldrei heyrt því haldið fram af nokkrum manni fyrr en hér í ræðustóli í Alþingi í dag. Ég hef alltaf heyrt alla fjalla um hnefaleika sem árásaríþrótt en ekki sjálfsvarnaríþrótt. Að mínu viti er hún ein af fáum íþróttum sem miðar að því að skadda andstæðinginn, skadda hann nægilega til þess að skora fleiri stig en hann. Ég held að við þurfum síst á því að halda í íslensku þjóðfélagi að auka kennslu í því sem við getum kallað árásir eða ofbeldi. Við þekkjum öll umræðuna um einelti í skólum og vaxandi ofbeldishneigð, og ég tel þetta vera mjög merkilegt fordæmi sem við höfum í íslenskum lögum að heimila ekki þessa íþrótt, þessa árásaríþrótt.

Mig langar undir lokin, herra forseti, að ítreka það sem ég sagði áðan að ef menn gætu komið sér saman um það á sama hátt og menn hafa gert varðandi það að slá ekki fyrir neðan beltisstað, að ekki mætti slá í höfuð eða andlit, það væri að vísu enn þá um árásaríþrótt að ræða en varanlegir áverkar ekki sambærilegir við það sem er í hnefaleikum af hvaða tagi sem þeir eru.

[15:30]

Sumir segja að þessi lög séu barn síns tíma. En það er oft svo að gömlu gildin endast. Frv. var lagt fram á Alþingi og samþykkt sem lög árið 1956. 1. flm. var Kjartan J. Jóhannsson sem var læknir og sjálfstæðismaður og sat á þingi fyrir Vestfirðinga í mörg ár. Ég tel að hann hafi verið á undan sinni samtíð og þeir sem stóðu með honum að þessu frv. Ég veit alla vega að læknasamtök víða um lönd líta til Íslands sem fyrirmyndar hvað afstöðu til hnefaleika varðar. Það má samt ekki gleyma því að á þessum tíma, á sjötta áratugnum, var ekki mjög fjölbreytt íþróttalíf í boði á Íslandi. Það hefur breyst. Nú er gríðarlegt framboð á alls kyns íþróttaiðkun þannig að af þeim ástæðum þarf ekki hnefaleika.

Mér skilst að sænski íþróttamálaráðherrann hafi áhuga á að kalla saman íþróttamálaráðherra Norðurlandanna til að samræma afstöðu milli landanna með það í huga að banna hnefaleika. Þeir eru nú þegar bannaðir í atvinnuskyni í Noregi og Svíþjóð. Í Danmörku mega menn ekki ganga í hnefaleikafélag, skilst mér, nema þeir hafi hreint sakarvottorð. Og af hverju skyldi það nú vera, herra forseti? Skrýtin tilviljun. Er það þannig með önnur íþróttafélög eða aðrar íþróttagreinar? Nei, auðvitað ekki. Það er vegna þess að hnefaleikar hafa sérstöðu. Og ólympískir svokallaðir hafa líka sérstöðu. Þeir eru árásaríþrótt hvort sem þeir eru á vegum atvinnumanna, sem fá greitt fyrir þátttöku sína eða áhugamanna og þess vegna gildir það sama um þá.

Höfuðáverkar eru auðvitað það sem mest hefur verið rannsakað en rétt er að minna á aðra áverka, t.d. augnáverka. Í einni rannsókn sem var mjög ítarleg og var unnin af Wedrich og félögum í Austurríki voru bornir saman tveir hópar ungra manna, annars vegar 25 áhugaboxarar, ungir menn sem enn voru að boxa og 25 menn sem höfðu ekki komið nálægt þeirri íþrótt. Hvað augun varðar þá var heilmikill munur á niðurstöðunum. Ég ætla ekki að tíunda það en þingmenn geta fengið afrit af þessari grein hjá mér ef þeir vilja. Í dag eru til nákvæmari rannsóknaraðferðir en voru bara fyrir tíu árum, ég tala nú ekki um árið 1956. Það má nefna t.d. sneiðmyndir og segulómun á höfði en þessi rannsóknartækni nær því ekki að rannsaka heilastarfsemina, hún sýnir bara líffræðilegt ástand eins og það er við rannsóknina en ekki mikilvæga þætti eins og minni og fleira sem skiptir máli í þessu sambandi. Einnig þarf til að koma læknisrannsókn og læknisskoðun með tilliti til taugakerfisins, fínhreyfinga fyrst og fremst, og hvernig tal og minni varðveitist. Samkvæmt grein eftir Haglund, sem vitnað er til í greinargerð með frv., þá kemur fram að heilalínurit og rannsókn á svokölluðum fínhreyfingum sýni vissan heilaskaða í sumum áhugamannaboxurum.

Ég verð að segja að Norðurlöndin saman og fleiri þjóðir, þar með Bretar og Bandaríkjamenn ættu frekar að vinna saman að því að áhugamannabox verði afnumið á Ólympíuleikunum og tekið af þeim vettvangi heldur en að við Íslendingar stígum þar skref í öfuga átt.

Ég held, herra forseti, að það sé tímaskekkja að heimila áhugamannahnefaleika og tel mig hafa rökstutt það. Svo við förum aftur til ársins 1956 þá voru lög um bann á hnefaleikum sett í kjölfar slagsmála á dansleikjum þar sem þekktir hnefaleikamenn komu við sögu. Afleiðing þeirra óláta voru m.a. varanleg örkuml er lögreglumenn urðu fyrir. Auðvitað er þetta mál sem fennir yfir, það fennir í svona spor, en ég efast ekki um að það hafi verið mikið hitamál á þeim tíma. Ég efast heldur ekki um að fjölskyldur þeirra sem þar urðu fyrir áverkum muni vel aðdraganda laganna. Ég vil halda það í heiðri, herra forseti.