Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:53:26 (4352)

2000-02-15 15:53:26# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað um þetta málefni, býsna fróðlegar sumar hverjar. En það er ljóst að það eru nokkur atriði sem þarf að taka hérna fram aftur. Hnefaleikar eru ekki árásaríþrótt. Svo er ekki. (Gripið fram í: Varnar\-íþrótt.) Varnaríþrótt já, það er akkúrat málið. Það er í öðru lagi réttlætismál að geta valið þá íþrótt sem menn vilja keppa í. Í þessari ákveðnu íþrótt er keppt á Ólympíuleikum. Við erum þátttakendur þar og leggjum blessun okkar yfir það. Til eru aðrar greinar sem eru sjálfsvarnaríþróttir sem keppt er í þar og við leggjum blessun okkar yfir það. Sýnt hefur verið með rannsóknum að slys eru fátíð í ólympískum hnefaleikum og þá spyr ég: Hvers vegna má ekki leyfa þá? Og það er það sem málið snýst um.

Þeir sem hafa talað á móti frv. hafa ekki talað af gildum eða miklum rökum. Síðan er það forsjárhyggjumálið sem mér finnst alveg vera einkennandi fyrir þetta mál hér. Menn tala hérna um slaginn sem var í Listamannaskálanum árið 1955 sem fór fram áður en margir þingmenn sem hér eru voru fæddir. Og þá kom þetta upp hér. Það vill nú svo til að ég man aðeins eftir þessu uppþoti sem þá var og síðan þessari lagasetningu í framhaldi af því.

En eins og ég sagði í ræðu minni áðan er nú árið 2000. Árið 1956 man ég eftir að þá var til í sveitinni nokkuð sem hét Farmall A traktor. Nú hafa traktorarnir breyst og tæknin og annað slíkt og eins er með þetta. Nú eru komnar hlífar, öðruvísi hanskar og þar af leiðandi eru minni slys. Ef ekki er hægt að fara eftir þessum rökum þá eigum við bara að halda áfram í forsjárhyggjunni og banna hitt og þetta. Og hvar endum við? Þetta er komið út í eintóma vitleysu.

Það er ljóst að ÍSÍ og Ólympíusamband Íslands styðja þetta mál. Ég held að það sé okkur til framdráttar sem þjóð og sem einstaklingum að leyfa ólympískt box og verða þá strikaðir út af þeim lista að vera eina þjóðin í heiminum sem bannar ólympíska hnefaleika. Mér finnst það koma á óvart þegar farið verður yfir þetta að við erum eina þjóðin sem bannar ólympískt box af því að við erum með svo rosalega flottar rannsóknir sem segja að þetta sé allt saman ómögulegt, eins og kom hér fram hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted, sem þó eru engar rannsóknir.

Það eru slys á augum. Við getum farið í þessar íþróttagreinar allar. Hvað gerist ef fótbolti eða handbolti fer í auga, ef menn detta af hestbaki o.s.frv.? Hvar eiga menn að draga mörkin?

Að lokum vonast ég til að hv. Alþingi auðnist að samþykkja þetta frv. sem liggur hér fyrir.